99 prósenta öryggi laxastofna
„Auðveldlega má gera því skóna með samanburði við sunnanverða Vestfirði að eignir almennings á Norðanverðum Vestfjörðum geti hækkað um 10 til 20 milljarða króna á nokkrum árum vegna hækkunar fasteignaverðs á svæðinu. Þarna er þó um að ræða matskennda stærð. Einnig má reikna með að tekjur sveitarfélaganna við Ísafjarðardjúp aukist um a.m.k. 500-600 milljónir króna á ári vegna tekna af útsvari og hafnargjöldum þegar eldið í Djúpinu verður komið í 30 þús. tonn á ári.
Ekkert eldi setur okkur hinsvegar í þá gamalkunnu stöðu að „finna eitthvað annað“ og hætt er við að fasteignaverð standi í stað og fólksfjölgun verði ekki.
Það tækifæri sem menn standa frammi fyrir við Ísafjarðardjúp núna er af stærðargráðu sem allir hafa áður talið óhugsandi, enda er áætlað framleiðsluverðmæti af 30 þúsund tonna eldi svipað og verðmæti helmings þorskaflans á Íslandi upp úr sjó. Íslenski villti laxastofninn yrði áfram verndaður 99%.“
Þetta kemur fram í grein í Morgunblaðinu sem Elías Jónatansson í Bolungarvík skrifaði í Morgunblaðið, 10. ágúst sl.undir fyrirsögninni 99 prósent öryggi laxastofna. Greinin birtist hér á eftir í heild sinni.
Vestfirðingar hafa aldrei staðið frammi fyrir viðlíka tækifæri í atvinnuuppbyggingu og nú. Þróun fiskeldis í góðri sátt við náttúruna er þegar hafin á sunnanverðum Vestfjörðum og augljóst að tækifærin eru síst minni við Ísafjarðardjúp.
30 þúsund tonna laxeldi í Ísafjarðardjúpi er í samræmi við burðarþolsmat Hafró, en með því væri tekin algjör lágmarksáhætta á tímabundinni erfðablöndun á 1% íslenska laxastofnsins í tveimur laxveiðiám i Ísafjarðardjúpi. 99 prósent laxastofna við Ísland yrðu hinsvegar alveg örugg áfram. Það sýna útreikningar sérfræðinga.
Líkurnar vinna með eldinu
Allt bendir til að erfðabreyting gæti verið afturkræf í þessum ám þar sem veiddir eru innan við 1% villtra laxa á Íslandi, vegna þess að erfðablöndunin væri staðbundin og erfðamengið er áfram til ómengað.
Vöktun á ánum og viðbragðsáætlun eru mikilvæg atriði, en mikilvægast er að beita ýmsum forvörnum sem draga mundu úr líkum á erfðablöndun. Manngerðir laxastigar sem þegar eru fyrir hendi gætu t.d. nýst til aðgöngustýringar kynþroska fisks að ánum.
Ég tel einsýnt að stefna beri að 30 þúsund tonna laxeldi við Ísafjarðardjúp, um leið og tryggð verði lágmarksáhrif þess á það 1% íslenska laxastofnsins sem á aðsetur í Djúpinu. Ein leiðin til þess er að samhliða uppbyggingu fiskeldisins verði unnið að uppbyggingu villta laxastofnsins í Ísafjarðardjúpi.
Langtímasjónarmið höfð að leiðarljósi
Oft eru stjórnmálamenn gagnrýndir fyrir að hafa ekki mótað stefnu í tíma. Ákvarðanir séu teknar án undangenginnar umræðu og yfirvegunar. Stefnumótandi ákvörðun um að fiskeldi í Ísafjarðardjúpi var hinsvegar tekin strax árið 2004. Forráðamenn sveitarfélaganna hafa því í áranna rás hvatt menn og fyrirtæki til dáða í uppbyggingu fiskeldis. Fyrirtækin hafa hér verið að fóta sig í fiskeldi á annan áratug a.m.k. og talið sig verið í góðri sátt við umhverfið, samfélagið og stjórnvöld.
Sveitarstjórnir hvetja til fiskeldis í Ísafjarðardjúpi
Sú vinna og útlagður kostnaður sem einstaklingar og fyrirtæki hafa þegar lagt í við að koma á fót fiskeldi við Ísafjarðardjúp er ómæld. Stefnumörkun stjórnvalda hefur haft afgerandi áhrif á stefnu einstaklinga og sjávarútvegsfyrirtækja að setja fjármuni í rannsóknir og þróun fiskeldis fremur en að byggja bara upp hefðbundnar greinar eins og útgerð eða fiskvinnslu.
Detti stjórnvöldum í hug að breyta skyndilega um stefnu nú þá þurfa að vera til þess afar sterk rök, enda væri þá verið að gera forráðamenn sveitarfélaganna, núverandi og fyrrverandi, að ómerkingum.
Nýlegt burðarþolsmat Hafró segir að leyfa mætti 30 þúsund tonna eldi í Ísafjarðardjúpi. Til viðbótar matinu óskuðu stjórnvöld eftir áhættumati vegna hugsanlegrar erfðablöndunar úr eldislaxi í villtan. Áhættumatið er sett fram í skýrslunni: „Áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi“ sem unnin er af sérfræðingum sömu stofnunar ásamt erlendum sérfræðingum, Hér kölluð skýrsla eða áhættumat Hafró. Skýrslan byggir á líkani sem reiknar líkur á innblöndun (flakki) eldislax í ár og erfðamengun af völdum hennar.
Viðbragðsáætlun og forvarnir eru lykilatriði
Ótal leiðir virðast færar til að minnka hættu á erfðablöndun vegna innblöndunar eldislax í þær tvær ár, Laugardalsá og Langadalsá/Hvannadalsá sem eru metnar í hættu í Ísafjarðardjúpi í tengslum við 30 þús. tonna laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Ein mótvægisaðgerð sem grípa má til er að rækta upp náttúrulega stofninn í ánum tveimur, en það drægi mjög úr hættu á erfðabreytingum. Mörg dæmi eru um að veiðitölur hafa margfaldast við ræktun laxastofna. Ef takast mætti að tvöfalda náttúrulega stofninn í þeim tveimur ám sem um ræðir í Ísafjarðardjúpi þá lækkar það hlutfall strokulaxa úr eldi úr 7,5% í 3,8% sem er innan marka sem höfundar setja sem viðmið gagnvart erfðablöndun. (sjá myndir 7 og 8 á bls. 26 og 27 í skýrslunni). Fræðimenn telja reyndar mun minni líkur á að flökkulax nái að valda erfðablöndun í á sem er „þéttsetin“ af villtum laxi fyrir því hann finni sér ekki hrygningarstað. Því leggja höfundar til að lögð verði áhersla á að tryggja að ávallt sé næg hrygning til staðar í náttúrulegum laxveiðiám (bls. 5). Vöktun laxastiga eins og nefnd var hér á undan er önnur mikilvæg leið í forvörnum.
Eldi á geldlaxi gæti svo komið síðar þótt þróun á slíku eldi eigi langt í land og algjörlega útilokað að laxeldi í Ísafjarðardjúpi verði látið bíða þess að það verði hagkvæmt.
99% trygging þýðir ásættanlega áhættu
Við mat á hættu á erfðablöndun á laxi er mönnum nokkur vandi á höndum enda ekkert fordæmi til fyrir slíku áhættumati í heiminum. Mikið er þó horft til rannsókna Norðmanna í því sambandi sem hafa sett ströng viðmið um hámarksfjölda eldislaxa í laxveiðiám. Skýrsluhöfundar leggja til að miða hámarksfjölda á eldislaxi í íslenskum laxveiðiám sem eru nærri fiskeldi við 4%, en þar miða Norðmenn við 10%. Í ám sem eru „langt“ frá laxeldisstöð miða Norðmenn hinsvegar við 4% eins og skýrsluhöfundar leggja til.
30 þúsund tonna laxeldi í Djúpinu þýðir skv. líkaninu að verið væri að taka áhættu á að innblöndun strokulaxa í tveimur laxveiðiám í Djúpinu yrði 7,5% sem er yfir því viðmiði sem skýrsluhöfundar setja við 4%. Það er hinsvegasr vel innan þess 10% viðmiðs sem Norðmenn nota. Viðmið Norðmanna er því í þessu tilfelli 150% víðara en það sem skýrsluhöfundar leggja til. Viðmiðið 4% fyrir fjarlægar ár er hinsvegar hið sama og hjá Norðmönnum.
Jafnvel þótt skýrsluhöfundar hefðu þrengt viðmiðið um 25% frá norska viðmiðinu hefði það þýtt tillögu skv. áhættumati um að leyfa ætti 30 þús. tonna eldi í Djúpinu eins og burðarþolsmatið gerði ráð fyrir.
Vegna landfræðilegra aðstæðna er hér hægt að taka algjöra lágmarks áhættu til að ná ótrúlegum ávinningi. Hér er því um einstakt tækifæri að ræða.
En hvað ef forvarnir og viðbragðsáætlanir mistakast ?
Það er vissulega áleitin spurning hvað gerist ef öll plön um forvarnir og viðbrögð fara úr skorðum og menn missa tímabundið tökin á innblöndun í þeim tveimur ám sem um ræðir í Ísafjarðardjúpi. Er þá tekin áhætta með allan villta laxastofninn á Íslandi.
Svarið tel ég vera einfalt – NEI.
Á bls. 20 í skýrslunni segir að náttúrulegt flakk á laxi úr einni á í aðra sé metið á bilinu 4% til 20% skv. rannsóknum. Gera verður ráð fyrir að lægra gildið gildi um ár í mikilli fjarlægð, en efra gildið um ár í grennd við upphafsána.
Út frá líkindafræði þýðir þetta einfaldlega það að ef erfðablöndun ætti að geta borist úr einni á í aðra með náttúrulegu flakki þá þyrfti erfðablandaða áin að vera orðin verulega erfðablönduð. Dæmi um 20% erfðablandaða á í Ísafjarðardjúpi mundi þýða, að náttúrulegt flakk á erfðablönduðum laxi í aðrar ár utan Ísafjarðardjúps væri 0,8%, en gæti hugsanlega náð 4% ef flakkið væri 20% í ár sem væru næst upphafsánni í Djúpinu. Niðurstaðan er að hættan á að ár utan Ísafjarðardjúps verði fyrir erfðablöndun er algjörlega hverfandi (undir 1%) Í ljósi þess að erfðablöndun sem næmi tugum prósenta í einni á gæti einungis orðið ef innblöndun á eldislaxi væri viðvarandi mikil (jafnvel í áratugi) og síendurtekin verður að teljast útilokað að slík staða kæmi upp.
Enn kann einhver að spyrja. Hvað ef sérfræðingarnir hafa nú metið, mælt eða reiknað vitlaust. Getur samt ekki orðið óæskileg erfðablöndun úr einni á í aðra?
Þeirri spurningu hefur náttúran væntanlega þegar svarað sjálf. Ef náttúrulegt flakk úr einni á í aðra væri nægilegt til „erfðablöndunar“ væri þá náttúran ekki löngu búin að jafna út erfðamengið í öllum íslenskum ám og gera þær einsleitar en ekki einstakar?
Niðurstaðan verður því enn og aftur sú að áhættan sem tekin er með því að leyfa laxeldi í Ísafjarðardjúpi er algjörlega staðbundin og engin hætta á að hún berist út í lax um landið allt.
Tugir milljarða til almennings og árlega 600 hundruð milljónir til sveitarfélaga
Auðveldlega má gera því skóna með samanburði við sunnanverða Vestfirði að eignir almennings á Norðanverðum Vestfjörðum geti hækkað um 10 til 20 milljarða króna á nokkrum árum vegna hækkunar fasteignaverðs á svæðinu. Þarna er þó um að ræða matskennda stærð. Einnig má reikna með að tekjur sveitarfélaganna við Ísafjarðardjúp aukist um a.m.k. 500-600 milljónir króna á ári vegna tekna af útsvari og hafnargjöldum þegar eldið í Djúpinu verður komið í 30 þús. tonn á ári.
Ekkert eldi setur okkur hinsvegar í þá gamalkunnu stöðu að „finna eitthvað annað“ og hætt er við að fasteignaverð standi í stað og fólksfjölgun verði ekki.
Það tækifæri sem menn standa frammi fyrir við Ísafjarðardjúp núna er af stærðargráðu sem allir hafa áður talið óhugsandi, enda er áætlað framleiðsluverðmæti af 30 þúsund tonna eldi svipað og verðmæti helmings þorskaflans á Íslandi upp úr sjó. Íslenski villti laxastofninn yrði áfram verndaður 99%.
Stjórnmálamenn taki af skarið í samræmi við burðarþolsmat
Enginn á jafn mikið undir í því að fiskeldið í Ísafjarðardjúpi fái að dafna og almenningur við Djúp. Áhættan sem tekin er með því að leyfa fiskeldi í Ísafjarðardjúpi í samræmi við burðarþolsmat Hafró er algjörlega staðbundin og snýst um hlutfall sem er af stærðargráðunni 1% af íslenskum laxastofnum.
Stjórnmálamenn þurfa að meta hvort ásættanlegt sé að taka áhættu á að 1% íslenska laxastofnsins gæti þurft að þola tímabundna erfðabreytingu sem vel væri hægt að vinna til baka, kæmi hún upp. Þegar höfð eru í huga þau gríðarlegu jákvæðu áhrif sem fylgja laxeldi í Ísafjarðardjúpi, bæði fyrir vestfirsk samfélög og þjóðarbúið í heild, þá ætti ákvörðunin að vera auðveld. Mér er til efs að ákvarðanir almennt um veiðiheimildir úr fiskistofnum við Ísland sé hægt að taka með svo lítilli áhættu um áhrif á stofnstærð.
Það hlýtur að vera skylda stjórnmálamanna sem um málið fjalla að tryggja þá miklu hagsmuni almennings sem eru í húfi og ljúka leyfisveitingum vegna laxeldis í Ísafjarðardjúpi sem fyrst.
1 prósent fyrir íbúana
Búið er að velta við hverjum steini vegna ákvörðunar um fiskeldi í Ísafjarðardjúpi. Engin haldbær rök eru til þess að fresta eldisáformum frekar og tefja þá miklu uppbyggingu sem stendur fyrir dyrum við Ísafjarðardjúp. Gríðarlegir hagsmunir eru í húfi fyrir sveitarfélögin og íbúa þeirra og áhættan sem fylgir uppbyggingunni er ásættanleg.
Með því að taka ákvörðun núna um 30 þúsund tonna laxeldi í Ísafjarðardjúpi fær villti laxastofninn og náttúran að njóta 99% en íbúarnir 1% vafans.
Slík ákvörðun myndi leggja grunnin að mesta ævintýri sögunnar í uppbyggingu atvinnu- og mannlífs á Vestfjörðum.