Rólegt yfirbragð yfir makrílveiðum
Makrílveiðar eru enn á rólegri nótunum. Aflinn er aðeins orðinn 38.000 tonn en leyfilegur heildarafli er 175.000 tonn. Eftir standa þá óveidd 137.000 tonn. Makríl er úthlutað á almanaksárinu, ekki fiskveiðiárinu og því er enn nægur tími til að sækja meiri aflaheimildir, gefi makríllinn sig á annað borð.
Aflareynsluskipin eru með langmestan kvóta, samtals 145.600 tonn eftir tilfærslur milli ára og millifærslur. Afli þeirra er orðinn 34.260 tonn og því óveidd 11.350 tonn. Aflahæstu skipin eru Venus NS með 4.760 tonn og Víkingur AK með 4.033 tonn.
Úthlutun vinnsluskipa er 28.000 tonn en eftir millifærslur eru heimildir þeirra nú um 18.800 tonn. Aðeins tvö skip úr þessum flokki hafa landað afla. Það eru Brimnes RE með 1.538 tonn og Gnúpur GK 742 tonn.
Í flokknum skip án vinnslu var úthlutun 7.316 tonn. Eftir millifærslur eru aflaheimildir þeirra nú 1.752 tonn, en ekkert þessara skipa hefur landað makríl það sem af er.
179 smábátar hafa heimildir til veiða á makríl í ár. Úthlutun til þeirra nemur 6.983 tonnum auk þess sem þeir geta leigt til sín allt að 2.000 tonn samtals frá Fiskistofu. Afli smábátanna nú er aðeins 639 tonn. Langaflahæsti báturinn er Fjóla GK.
Á myndinni landar Óli Gísla GK makríl í Keflavík. Ljósmynd Hjörtur Gíslason.