Slysasleppingar óhjákvæmilegar

Deila:

Bæði lax og regnbogasilungur með eldiseinkenni hafa veiðst í ám á Vestfjörðum en uppruni þeirra er óþekktur. Fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun telur að slysasleppingar séu óhjákvæmilegar en þær eru ástæða þess að eldisfiskur getur blandast náttúrulegum stofnum. Auknu fiskeldi fylgi auknar líkur á slysasleppingum eldisfisks. Frá þessu var greint á ruv.is

Fiskeldisfyrirtækjum ber að tilkynna um slysasleppingar

Fiskeldisfyrirtækjum ber að tilkynna Fiskistofu um slysasleppingar úr eldiskvíkum og frá árinu 2000 hefur Fiskistofa fengið upplýsingar um fjögur slík atvik: Árið 2003 varð slysaslepping í höfninni í Neskaupsstað. Árið 2013 sluppu laxar úr kví í Patreksfirði. Þá varð slysaslepping á regnbogasilungi árið 2016 í Berufirði sem og í Dýrafirði á Vestfjörðum. Sleppingarnar skýra þó ekki þann fjölda regnbogasilungs sem hefur veiðst.

Fiskur með eldiseinkenni í ám

Regnbogasilungur er geldfiskur og blandast ekki öðrum stofnum. Laxinn er hins vegar frjór og af norskum uppruna. Þrátt fyrir hertar reglur um eldisbúnað fiskeldisfyrirtækjanna hefur bæði lax og regnbogasilungur með eldiseinkenni veiðst í ám á Vestfjörðum að undanförnu.  „Það sést bæði á sporði og uggum og gjarnan er þessi fiskur bólusettur og samgróin innyfli svo þá má þekkja þá af ýmsum útlitseinkennum,“ segir Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri ferskvatnslífríkis hjá Hafrannsóknastofnun.

Ekki verið upprunagreindur

Laxinn hefur þó ekki verið upprunagreindur þótt erfðasýni hafi verið tekin, Guðni segir að unnið sé að því að finna ódýra leið til að greina uppruna fisksins sem sé nú mjög dýrt. Guðni segir að eldisfiskurinn, sem hefur veiðst, gæti annaðhvort hafa lifað af í náttúrulegum aðstæðum um tíma eða sloppið úr kvíum án þess að um það hafi verið vitað. „Stærsti hlutinn af þeim fiski sem er að sleppa er ekki vita af hvaða orsökum er að sleppa, það bara gerist og það er reynsla bæði frá Noregi og Skotlandi að stærsta prósentan, þótt að slys verði, þá er alltaf einhver leki sem menn ekki vita af,“ segir Guðni. Auknu umfangi fiskeldis fylgi því auknar líkur á óútskýrðum sleppingum.

Hætta á að laxastofnar minnki

En í hverju felst hættan á erfðablöndun? Guðni segir að ekki sé ljóst hver nákvæm áhrif blöndunar laxastofnanna hér við land gætu orðið en í lífsferli laxa séu margir þættir sem eru tengdir erfðum, til dæmis ratvísi. „Innblöndunin minnkar lífsþróttinn og er líkleg til að valda, eins og sýnt hefur verið framá, hnignun stofna. Þannig að íslensku stofnarnir koma til með að minnka,“ segir Guðni.

 

Deila: