Eitt verði látið yfir alla ganga

Deila:

Rekstur og starfsemi Vinnslustöðvarinnar gekk vel á árinu 2016 og afkoman ein sú besta sem um getur í sögu félagsins. Bolfiskvinnslan var samt rekin með tapi.

Þetta kom fram í skýrslu stjórnar sem Guðmundur Örn Gunnarsson stjórnarformaður flutti á aðalfundi í Akoges í Vestmannaeyjum 6. apríl 2017.

Ræða stjórnarformannsins er birt hér í heild sinni

„Að baki er óvenju viðburðarríkt ár í starfseminni, bæði inn á við og út á við. Auðvitað ber þar hæst að nýja uppsjávarhúsið okkar var tekið í gagnið með prófunarvinnslu á haustdögum og síðan formlega á samkomu 15. október, að viðstöddum fjölda bæjarbúa og annarra  gesta. Framkvæmdir hófust í febrúar  á síðasta ári og þetta glæsilega hús var tilbúið á tilsettum tíma, þökk sé verktökum, starfsmönnum okkar og öðrum sem að verki komu.

Afkoman með því besta sem dæmi eru um frá upphafi

Reynslan af starfseminni í nýja húsinu er góð og fyllilega í samræmi við væntingar. Við völdum að fara að ráðum kaupenda okkar og markaðsráðgjafa í tæknilegri uppbyggingu uppsjávarvinnslunnar og velja svokallaða blástursfrystingu í stað hefðbundinnar plötufrystingar á Íslandi. Þetta var gert í samræmi við skýr skilaboð frá hinum mikilvæga Asíumarkaði um að við gætum vænst þess að fá hærra verð fyrir afurðir úr blástursfrystingu en þeirri hefðbundnu, íslensku.

Rekstur og starfsemi Vinnslustöðvarinnar gekk annars vel á árinu og afkoman með því betra sem um getur í sögu félagsins. Sú staðreynd sætir í sjálfu sér tíðindum því sviptivindasamt var á mikilvægum markaðssvæðum okkar á næstu árum þar á undan.

Þó ber að taka fram að bolfiskvinnslan gekk ekki sem skyldi. Á henni var taprekstur á árinu.

Sviptingar á mörkuðum VSV

VSV línurit 1

Ég leyfi mér að bregða hér upp mynd af helstu mörkuðum okkar árið 2014 annars vegar og á árinu 2016 hins vegar. Þar sést í hnotskurn gríðarleg breyting sem varð á okkar högum við innflutningsbann Rússlandsstjórnar.

Við þorðum tæplega að vona að úr rættist svo skjótt og vel sem raun ber vitni en urðum að takast á við breyttar aðstæður og gerðum það með góðum árangri.

Lykillinn að því var stóraukin áhersla Vinnslustöðvarinnar á eigin markaðs- og sölumál hér í Vestmannaeyjum og í söluskrifstofum og umboðsmannakerfi sem við höfum sett upp um lönd og álfur.

Fiskveiðistjórnarkerfið er farsælt

Gengi íslenskrar krónu var óþægilega hátt á árinu og er enn. Gengissveiflur eru hins vegar nokkuð sem þekkjum og höfum staðið frammi fyrir áður. Þetta er umhverfið sem við störfum í og aðstæður sem við verðum að gera ráð fyrir að skapist en ef að líkum lætur leitar ástandið einhvers konar jafnvægis. Við látum það gerast frekar en að kalla eftir því að stjórnvöld fari að „handstýra“ gengi krónunnar.

Fiskveiðistjórnarkerfið reynist okkar fyrirtæki og þjóðinni allri vel og gerir það mögulegt að hagræða í rekstri, skipuleggja veiðar og vinnslu í þágu afhendingaröryggis fyrir kaupendur og neytendur og fá þannig sem mest fyrir afurðir sjávarins sem við drögum að landi og gerum að markaðsvöru.

Harkalega var deilt um veiðigjöld á sínum tíma en þau voru sett á með lögum og verða ekki aflögð í fyrirsjáanlegri framtíð.

Ábyrgðarlaust að mæla fyrir hækkun veiðigjalda

Veiðigjöldin eru vissulega íþyngjandi og við finnum fyrir þeim en gerum ráð fyrir því í rekstrinum að þau séu og verði til staðar. Aðra ályktun er ekki unnt að draga af pólitísku andrúmslofti í landinu og af þjóðmálaumræðunni.

Hins vegar er fráleitt  og ábyrgðarlaust að tala fyrir því að hækka veiðigjöldin, jafnvel stórhækka þau. Þau eiga að vera hófleg og í samræmi við afkomu fyrirtækjanna á hverjum tíma í stað þess að miðast við tveggja ára gamlar rekstrartölur eins og nú er.

Svo er auðvitað fullkomlega eðlilegt að eitt sé látið yfir alla ganga sem nýta auðlindir náttúrunnar í starfsemi sinni. Hvorki er pólitískt né siðferðilega rétt að sjávarútvegsfyrirtækin ein beri auðlindagjöld, sem reyndar eru bara gjöld fyrir nýtingu að nafninu til en í raun ekkert annað en viðbótarskattheimta ríkisins gagnvart sjávarútvegi og fyrirtækjum sem í atvinnugreininni starfa.

Tekur tíma að vinna upp tjón vegna sjómannaverkfallsins

Langt verkfall sjómanna raskaði starfsemi okkar fyrirtækis og efnahags- og atvinnulífi landsmanna yfirleitt frá því um miðjan desember 2016 þar til samningar tókust 18. febrúar 2017.

Sjaldan veldur einn þá tveir deila, segir gamalt máltæki og það átti við þarna. Auðvitað var mikill léttir að loksins skyldi takast að semja og ljúka deilunni þannig en fram hjá því verður ekki horft að sjómannaverkfallið varð samfélaginu dýrkeypt og afleiðingar þess eru alvarlegar.

Þegar fiskur frá Íslandi barst ekki inn á erlenda markaði vikum og mánuðum saman sáu margir keppinautar sér leik á borði til að fylla í skörðin. Kaupendur og neytendur urðu að láta sér duga að fá lakari vöru og borga minna fyrir hana en íslenskan fisk áður.

Þegar fiskur barst frá Íslandi á nýjan leik hafði markaðurinn að einhverju leyti lagað sig að verkfallsástandinu. Lægra verð var orðið staðreynd sem setur verulegt strik í tekjureikning fyrirtækja, sjómanna og þjóðarbúsins á Íslandi.

Þannig er ástandið og þýðir ekki annað en að fást við það sem orðinn hlut. Glíman við að ná upp verði á nýjan leik á lykilmörkuðum okkar mun taka tíma.

Sjómannaverkfallið, aðrar vinnudeilur á Íslandi í seinni tíð og ískyggilegt útlit á vinnumarkaði hérlendis, með tugi kjarasamninga landsmanna lausa á næsta ári, vekur enn og aftur áleitnar og alvarlegar spurningar um samskipta- og leikreglur á íslenskum vinnumarkaði.

VSV línurit 2

Vinnulöggjöfina verður að endurskoða

Vinnulöggjöfin okkar er ekki í takt við tímann, löngu tímabært er að endurskoða hana. Sumir virðast samt hugsa þannig að hún hafi verið sköpuð í eitt skipti fyrir öll og vilja ekki einu sinni ræða breytingar á henni, hvað þá að breyta neinu sem máli skiptir.

Það er hins vegar staðreynd að regluverk vinnumarkaðarins á Íslandi er ekki sambærileg vinnulöggjöfinni hefur verið áratugum saman annars staðar í gildi á annars staðar á Norðurlöndum. Það sem frændum okkar í grannlöndum þykir sjálfsagt mál, hvort sem þeir sitja atvinnurekenda- eða launamannamegin samningaborðsins, á að vera sjálfsagt mál á Íslandi líka.  Þetta snýr til dæmis að valdssviði ríkissáttasemjara og hvernig staðið er að atkvæðagreiðslum um sáttatillögur eða nýja kjarasamninga.

Leiðarljós að skapa sem mest verðmæti og fjárfesta í heimabyggð

Vinnslustöðinni farnast vel nú um stundir, hvað sem öðru líður. Félagið hefur í gegnum tíðina fengið meðbyr eða mótbyr eftir atvikum. Okkur hefur oft tekist ekki síður vel að sigla þegar á móti blæs, eins og ég vék að áðan og vísaði til lokunar Rússlandsmarkaðar og vel heppnaðra viðbragða okkar í framhaldinu.

Leiðarljós félagsins er hagkvæmur rekstur til sjós og lands til að skapa sem mest verðmæti úr sjávarfangi á markaði. Það gerum við með framleiðslu í nýja uppsjávarvinnsluhúsinu, það gerum við með áherslu á fullvinnslu í Marhólmum og það gerum við með því að stækka frystigeymsluna margfalt, reisa mjölskemmu og fjölga hráefnisgeymum.

Við fögnuðum hundruðum gesta í opnu húsi í nýja uppsjávarhúsinu í október og héldum upp á sjálft afmæli félagsins í notalegu kaffisamsæti 30. desember. Á afmælisdaginn kom út bók um Vinnslustöðina og sögu hennar sem er hér fáanleg, fyrir þá sem vilja fá eitthvað uppbyggilegt að lesa um páskana.

Breki VE væntanlegur heim í sumar

Fáein orð um Breka VE. Það tefst enn að ljúka því að smíða skipið en við gerum ráð fyrir því hér í heimahöfn í sumar.

Í morgun fengum við fréttir af því frá Kína að á morgun fer Breki í reynslusiglingu við strendur Kína.

Fyrir aðalfundinum liggur tillaga um að Vinnslustöðin greiði hluthöfum alls 8 milljónir evra í arð vegna ársins 2016. Það er sama upphæði í evrum talið og samþykkt var á aðalfundi í fyrra og jafngilti þá 1.200 milljónum króna en 960 milljónum króna nú. Gengisstyrking krónunnar í hnotskurn, með öðrum orðum.

Arðgreiðslan svarar til 5% af ætluðu markaðsvirði hlutafjár og telst vera hófleg arðsemi.

Málarekstur vegna stjórnarkjörs

Í skýrslum stjórnar undanfarin ár hefur verið nánast fastur liður að víkja að málarekstri og öðru í þeim dúr sem varðar samskipti hluthafahópa. Ég hefði gjarnan viljað sleppa því að víkja að slíku nú en hlýt hins vegar að nefna það að kosning stjórnar á aðalfundi VSV í fyrra hafði eftirmál.  Eigendur Brims hf., félags sem á um það bil þriðjungshlut í Vinnslustöðinni, telja að stjórnarkosningin hafi verið ólögmæt og fóru með málið fyrir dómstóla. Málflutningur var fyrir Héraðsdómi Suðurlands á Selfossi núna í lok marsmánaðar.

Óvissan sem málareksturinn hefur tafið fyrir því að ljúka samningum við lánastofnanir um endurfjármögnun Vinnslustöðvarinnar. Fyrir fundinum liggur tillaga um að framkvæmdastjóra verði falið að ljúka fjármögnunarsamningunum og verður borin undir atkvæði. Þannig verður óvissu eytt að þessu leyti gagnvart lánastofnunum.

Farsælt samstarf stjórnarmanna

Mér er engu að síður ljúft að greina frá því að samstarf stjórnarmanna hefur verið farsælt og með miklum ágætum. Fulltrúar meirihluta og minnihluta í eigendahópnum, sem oft hefur verið vísað til innan félags og utan þess, hafa unnið mjög vel saman í stjórn og við stefnumörkun félagsins. Það vil ég þakka alveg sérstaklega. 

Í lokin bregð ég upp mynd af meistaraflokki kvenna í knattspyrnu ÍBV, sigurliði í Lengjubikarnum vorið 2016. Eyjastelpurnar eru á sigurbraut.

Eigum við ekki að segja í lítillæti í tilefni dagsins að Vinnslustöðin sé það líka …?

Að svo mæltu þakka ég stjórnendum og starfsfólki til sjós og lands fyrir gott og gjöfult starf á árinu.

 

 

Deila: