„Hefur Svandís ekki lesið sér til?”

Deila:
„Árangur varúðarstjórnar? Jú, hann er sá að han er farinn úr 450 þús. í áratuga óstjórn í um 200 þús. tonn eftir 40 ára vísindalega stjórn. Hefur Svandís ekki lesið sér til um þetta?”
Þetta skrifar Jón Kristjánsson fiskifræðingur vegna greinar Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um árangur af varrúðarsstjórnun í fiskveiðikerfinu. Eins og Auðlindin greindi frá í gær er Svandís þeirrar skoðunar að varúð í veiðiráðgjöf hafi gefist vel. Aug­ljóst sé að betra sé að van­meta stofn held­ur en of­meta, það sé ástæðan fyr­ir því að varúðarnálg­un við stjórn­un fisk­veiða sé skyn­sam­leg nálg­un. Þannig hnígi öll skyn­sem­is­rök að því að fara ætíð eft­ir ráðgjöf­ Hafrannsóknarstofnunar. Það muni hún því gera hér eftir sem hingað til.
Jón er aldeilis ekki á sömu línu og segir að grein ráðherra sé full af fáfræði og trúarbrögðum. „Svandís vísar í Huxley, en á hans tíma voru ekki til aðferðir til að mæla stofna með einhverri nákvæmni, frekar en nú. Stofnar þorsks og annara hvítfiska fóru ekki að minnka fyrr en farið var að stjórna veiðum á áttunda áratugnum. David H. Cushing sagði 1970 að þegar haldið væri að rýrnun fiskstofna væri vegna ofveiði væri það í flestum tilfellum vegna vanveiði, og skapaðist af röngu hlutfalli fæðu og fiskafjölda,” skrifar hann meðal annars á Facebook.
Hann bendir á að eftir að kvótakerfið hafi verið tekið upp – og afli hafi verið takmarkaður – hafi nýliðun þorsks minnkað og haldist lág síðan. „Frá 1964-1988 var meðal nýliðun þorsks 220 milljónir 3 ára þorska. En meðaltalið frá 1988 til dagsins í dag er um 150 milljónir þorska. Hvernig stendur á þessu?” spyr Jón.
Hann segist hafa haldið fyrirlestur fyrir ráðherra og stóru nefndina – Auðlindina okkar – í apríl og þar hafi hann lagt fram tilgátu:
„Ein af vísdómssetningunum í banka Hafró hefur löngum verið að stór hrygningarstofn gefi meiri nýliðun en lítill, þess vegna sé um að gera að hafa hann sem stærstan. Fyrir um 10 árum fór hrygningarstofn þorsks að stækka, þökk sé makrílnum. Árið 2018 var hann orðinn stærri en hann hafði verið frá 1963. Hann er orðinn um þrisvar sinnum stærri en hann var löngum á níunda og tíunda áratugnum. En nýliðunin lætur standa á sér. Hvernig má það vera? Til þess að ungviðið komist upp verða að vera til þess skilyrði. Fiskstofnar geta ekki stækkað endalaust. Ef stofninn er stór er orðið þröngt á þingi og mikil samkeppni um mat. Þess vegna er erfitt fyrir ungviðið að komast á legg.”
Í greininni sagði Svandís einnig: „Ef fiskifræðingar vanmeta stofn þýðir það meiri afla í framtíðinni. Ofmeti þeir stofnana þýðir það að áfallið verður minna í framtíðinni ef engar hömlur hefðu verið. Augljóst er (hverjum?) að betra er að vanmeta stofn en ofmeta, það er ástæðan fyrir því að varúðarnálgun við stjórnun fiskveiða er skynsamleg nálgun.”
Jón spyr hvað ráðherra sé að fara með þessum orðum sínum. „Hvað er hún að reyna að segja? Að það gefist vel að geyma fisk í sjó þar sem hann bíður afhroð vegna samkeppni, fóðurskorts eða verður étinn? Það setur nú að mér hroll þegar ég heyri þetta, hún hlýtur að vera illa lesin og hafa slæma ráðgjafa. Ætlar dellan að halda áfram endalaust?”
Deila: