Ný netagerð rís í Neskaupstað
Fjarðanet hf. sem er hluti af Hampiðjan Group er að byggja nýja netagerð í Neskaupstað. Nýja húsið rís á uppfyllingu austan við fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar og tilkoma þess mun fela í sér afar jákvæða breytingu fyrir starfsemi og þjónustu Fjarðanets. Húsið er 85 metra langt og 26 metra breitt og tvær hæðir að hluta. Það er gefið upp 2.600 fermetrar að stærð. Húsið leysir af hólmi gamalt verkstæðishús sem reist var árið 1965.
Jón Einar Marteinsson framkvæmdastjóri segir í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar, að mikil þörf sé fyrir nýja húsið. „Skip og veiðarfæri hafa stækkað mikið á síðari árum og sú þróun kallar á stærri og betri aðstöðu. Eins leggur fyrirtækið áherslu á þróun nýrra og betri veiðarfæra og þeirri starfsemi verður sköpuð góð aðstaða í nýja húsinu. Samhliða veiðarfæraverkstæðinu verður hluti nýja hússins nýtt sem nótageymsla og unnt verður að geyma öll veiðarfæri innan dyra. Þetta er byltingarkennd breyting frá þeirri aðstöðu sem við höfum búið við. Til viðbótar sinnir Fjarðanet gúmmíbátaþjónustu og þjónustu við fiskeldisstöðvar,“ segir Jón Einar.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdum við nýju netagerðina muni ljúka í marsmánuði á næsta ári.
Nýja netagerðin er 2.600 fermetrar að stærð. Ljósm. Smári Geirsson