Fínasti  túr

Deila:

Frystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar í gær að aflokinni 23 daga veiðiferð og löndun hófst úr skipinu í morgun. Aflinn er 646 tonn upp úr sjó og verðmæti hans 181 milljón króna. Uppistaða aflans er ufsi og karfi.

Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Bjarna Ólaf Hjálmarsson skipstjóra og spurði fyrst hvar skipið hefði verið að veiðum. „Við vorum að veiðum í Berufjarðarál, á Halanum, á Reykjaneshrygg og á Selvogsbanka. Segja má að afli hafi verið góður allan túrinn og það var einnig ágætis veður. Vinnslan um borð gekk vel þannig að menn eru ágætlega sáttir. Segja má að þetta hafi bara verið fínasti túr,“ segir Bjarni Ólafur.

Gert er ráð fyrir að Blængur haldi til veiða á ný á þriðjudag.

Á myndinni er landað úr Blængi NK. Ljósm. Hákon Ernuson

 

Deila: