Djúpt á djúpkarfanum

Deila:

,,Þetta er búin að vera fínasta veiðiferð að öðru leyti en því að það virðist vera djúpt á djúpkarfanum. Við erum nú staddir djúpt í Skerjadjúpinu og það er engan djúpkarfa að finna. Ég veit ekki hvað við gerum en við verðum a.m.k. hér fram á kvöld og svo verður næsta skref ákveðið fyrir morguninn.“

Þetta segir Eiríkur Jónsson, skipstjóri á Akurey AK í samtali á heimasíðu HB Granda, en löndun úr skipinu hófst í Reykjavík í gær morgun. Þótt djúpkarfinn hafi ekki látið sjá sig þá hefur veiðin heilt yfir verið góð og Akurey var komin með um 120 tonna afla er rætt var við skipstjórann.

,,Við byrjuðum veiðar á Fjöllunum og fengum strax góðan gullkarfa- og ufsaafla. Þaðan fórum við svo á Selvogsbankann. Þar var góð ýsuveiði yfir daginn og svo þorskveiði á nóttinni. Allt saman stór og góður fiskur og það þarf því engan að undra að þarna voru togarar að veiðum sem komnir eru langt að,“ segir Eiríkur en hann segir það sína tilfinningu að fiskiríið á Selvogsbankanum sé smám saman að gefa eftir.

,,Þarna hefur verið mjög góð ýsuveiði og einnig þorskveiði en fiskurinn virðist vera byrjaður á að ganga í auknum mæli út af grunninu. Það dregur úr afla skipanna og menn verða að leita fyrir sér annars staðar,“ segir Eiríkur Jónsson.

Deila: