Á höttunum eftir grálúðu
,,Við höfum mest verið á höttunum eftir grálúðu og það má segja að leitin að henni hafi gengið vonum framar. Það er vissulega ekki sá kraftur í grálúðuveiðunum sem maður hefði viljað sjá en það fæst þorskur með á slóðinni og það gerir gæfumuninn,“ segir Ævar Jóhannsson, skipstjóri á frystitogaranum Örfirisey RE í spjalli á heimasíðu HB Granda.
Ævar segist hafa byrjað veiðiferðina út af Hampiðjutorginu en þar hafi þá verið dræm grálúðuveiði.
,,Við höfum síðan fylgt norðurkantinum norður og austur eftir og erum nú staddir djúpt norður af Horni. Héðan eru 40 mílur í miðlínuna milli Íslands og Grænlands og í gær gátum við fylgst með ferðum grænlensks skips sem var á síldveiðum um 70 mílur norður af okkur,“ segir Ævar en hann segir að þar sem skipið sé statt nú sé helkaldur sjór sem henti helst fyrir tegundir eins og grálúðu og rækju.
,,Grálúðan hefur fengist á 230 til 350 faðma dýpi en þar er sjávarhitinn – 0,6 til – 0,8°C þótt yfirborðshitinn sé vissulega hærri. Þetta er fínasti fiskur. Grálúðan hér er e.t.v. ekki eins stór og menn eiga að venjast á Hampiðjutorginu en stærðin er samt í góðu lagi.“
Að sögn Ævars stefndi frystitogaraflotinn norður í lokað hólf sem opna átti tímabundið kl. 17 síðdegis í gær.
,,Menn eiga von að fá þarna góða ýsuveiði en það á eftir að koma í ljós hvernig veiðin gengur. Við förum svo væntanlega aftur á Hampiðjutorgið í von um að hitaskil gangi þar yfir svæðið og grálúðan gefi sig til. Við verðum svo með millilöndun í Reykjavík 31. ágúst nk. en veiðiferðinni lýkur formlega 6. september nk.,“ segir Ævar Jóhannsson.