Millilöndun hjá Örfirisey

Deila:

Frystitogarinn Örfirisey RE kom til hafnar í Reykjavík á föstudag eftir tveggja vikna úthald. Um er að ræða svokallaða millilöndun þannig að nýtt kvótaár hefst í seinni hluta veiðiferðarinnar. Arnar Haukur Ævarsson, skipstjóri á Örfirisey, er ánægður með aflabrögðin það er af er veiðiferðinni enda nemur aflinn upp úr sjó um 400 tonnum.

,,Við vorum lengst af veiðiferðinni á Vestfjarðamiðum. Við byrjuðum reyndar í Skerjadjúpinu og fengum þar djúpkarfa og gulllax. Aflinn var alveg þokkalegur en alls vorum við að veiðum í Skerjadjúpinu í þrjá daga,” segir Arnar Haukur í samtali á heimasíðu Brims.

Úr Skerjadjúpinu var haldið norður á Látragrunn.

,,Það var mjög góð ýsuveiði á Látragrunni eins og víðar á Vestfjarðamiðum. Svo kom haugabræla sem varði í tvo daga en tímann notuðum við til að koma okkur norður á Halamið. Við höfum oft fengið góða ufsaveiði á Halanum á þessum árstíma en að þessi sinni var það snúnara en oftast áður. Sérstaklega vegna þess að það er gríðarlegt magn af gullkarfa á Halanum. Við vorum í þeirri stöðu að forðast fiskinn sem mest var af en reyna að veiða það sem minnst var af. Þegar á heildina er litið tókst okkur nokkuð vel upp þótt mest hafi fengist af karfa og svo einnig af ýsu með ufsanum,” segir Arnar Haukur Ævarsson.

 

Deila: