Ísland í 19. sæti helstu fiskveiðiþjóða heims

Deila:

„Magnaukning í framleiðslu sjávarafurða á heimsvísu verður í framtíðinni drifin áfram af fiskeldi. OECD áætlar að árið 2022 verði alið magn í fyrsta sinn meira en veiðar. Kínverjar eru sem fyrr stórtækasta fiskveiðiþjóð heims með um 17% heildarafla. Ísland vermir 19. sæti á lista stærstu fiskveiðiþjóða og er hlutdeild okkar um 1,3% á heimsvísu. Íslendingar og Færeyingar skera sig úr hvað varðar veiðar á mann í Evrópu. Veidd tonn á hvern íbúa eru 14,5 í Færeyjum, 3,4 á Íslandi en einungis 0,45 í Noregi þar sem hlutfallið er þó hæst utan fyrrnefndra landa. Rússar eru sem fyrr langstærsta fiskveiðiþjóð Evrópu.“

Þetta kemur fram í nýútkominni skýrslu Íslandsbanka um sjávarútveg, Helstu atriði hennar eru eftirfarandi:

„Loðnubrestur veldur því að líkur eru á samdrætti aflamagns hér á landi árið 2019. Á fyrstu 9 mánuðum ársins nam samdrátturinn 6% miðað við sama tímabil árið á undan. Á móti talsverðum samdrætti í veiði uppsjávarfisks (-29%) vegur aukin veiði botnfisktegunda (4%). Árið 2018 jókst verðmæti heildaraflans um 13%, m.a. vegna aukinna veiða, verðþróunar og veikingar krónunnar. Sem fyrr var þorskur langverðmætasta tegundin árið 2018 og skilaði um 45% aflaverðmætis. Verðmæti þorskútflutnings jókst um fimmtung á milli ára og eftir nokkra lækkun ári áður eru verðmætin að nýju í nágrenni við afrakstur áranna 2015 og 2016.

Við spáum að útflutningsverðmæti sjávarafurða aukist um 9% í ár og verði í grennd við 250 milljarða króna. Hækkunina má m.a. rekja til verðhækkana, veikari krónu og aukningu á útflutningi þorsks. Árið 2020 gerum við ráð fyrir um 4% aukningu útflutningsverðmætis. Hlutdeild sjávarútvegsins í gjaldeyrisöflun hefur aukist nokkuð undanfarin þrjú ár og skilaði greinin um fimmtungi gjaldeyristekna þjóðarbúsins á fyrri helmingi ársins 2019. Ríflega helmingur útflutningsverðmæta er vegna útflutnings til okkar fimm stærstu viðskiptaþjóða; Bretlands, Frakklands, Spánar, Noregs og Bandaríkjanna. Útflutningsverðmæti eldisfisks dregst saman á milli ára en hefur þrátt fyrir það þrefaldast frá 2014.

Enn er mest magn sjávarafurða frá Íslandi flutt austur um haf til Noregs, eða um 125 þús. tonn. Að mestu er um að ræða mjöl og lýsi. Frá aldamótum hefur útflutt magn frystra sjávarafurða aukist um 48% og nemur verðmæti þeirra nú tæpum helmingi útflutningsverðmætis. Á sama tíma hefur útflutt magn saltaðra afurða, mjöls og lýsis dregist saman um u.þ.b. helming. Útflutningsverðmæti ferskra afurða hefur aukist um 133% frá aldamótum þrátt fyrir 16% samdrátt í útfluttu magni. Er þetta meðal annars sökum þess að ferskar afurðir eru fluttar út talsvert meira unnar en áður. Framleiðni í fiskveiðum og landbúnaði hefur aukist um 55% frá árinu 2011.

Konum hefur fækkað hlutfallslega meira en körlum frá því störf voru flest fyrir um þremur áratugum og voru þær 2.640 árið 2018. Þær sinna 30% starfa í sjávarútvegi, þar af 9% í fiskveiði og 43% í fiskiðnaði.

Meðalaldur fiskiskipaflotans var 31 ár árið 2018, eða um 10 árum hærri en um aldamótin. Meðalaldur togara hefur þó lækkað um 6 ár undanfarin 2 ár þar sem nýir togarar hafa verið teknir í notkun. Þá eru talsverðar skipafjárfestingar í farvatninu og áætluð um 24,5 ma.kr. fjárfesting næstu þrjú árin.

Tíu stærstu útgerðirnar fara nú með rúman helming úthlutaðs aflamarks og skera þrjár heimahafnir sig úr hvað varðar magn; Vestmannaeyjar, Grindavík og Reykjavík. Frá aldamótum hefur hlutfall Akureyrar af úthlutuðu aflamarki dregist mest saman, úr 10,5% í 4,2%. Mest hefur aukningin verið í Grindavík, Reykjavík og á Dalvík.

EBITDA framlegð var 22% árið 2018 en 18% árið 2017. Gengi krónunnar var að meðaltali 4% veikara árið 2108. Olíukostnaður hefur farið lækkandi sem hlutfall af tekjum af fiskveiðum. Hann nam 8% árið 2018 en var lengst af milli 10% og 14% fyrr á áratugnum.

Hagnaður sjávarútvegsfélaga á árinu 2018 var um 27 ma.kr. líkt og árið áður þrátt fyrir að hagnaður af reglulegri starfsemi hafi hækkað um 13 ma.kr. frá fyrra ári. Ástæðan felst í óreglulegum liðum. Skuldir fyrirtækja í greininni hafa aukist um 74 ma.kr. frá því þær náðu lágmarki árið 2016. Frá árinu 2015 hafa nýjar lántökur verið umfram afborganir sem bendir til að tímabil niðurgreiðslu skulda sé lokið og tímabil aukinnar fjárfestingar tekið við.“

Deila: