Fjórða iðnbyltingin kallar á „snjallar“ fiskvinnslur
„Sjálfvirkni í fiskvinnslum er sífellt að aukast og eiga framfarir í hugbúnaði stóran þátt í því. FleXicut vatnsskurðarvél Marel, ein stærsta tæknibylting í hvítfiskvinnslu síðan flökunarvélar voru fyrst teknar í notkun, hefur þegar gjörbylt hefðbundinni fiskvinnslu.“ Svo segir í færslu á heimasíðu Marel.
Marel kynnti FleXicut vatnsskurðarvélina til sögunnar fyrir aðeins fjórum árum síðan. Sjálfvirkni beinaskurðar bætir ekki einungis meðhöndlun hráefnis heldur eykur jafnframt hávirðishlutfall og nýtingu með því að besta hvert flak sem fer í gegnum vinnsluna.
Fyrstu vélarnar fóru í íslenskar fiskvinnslur, enda fylgir nýjum vélum að gera þarf lagfæringar og sníða af vankanta sem koma í ljós þegar tækin eru komin í fulla notkun. „Stöðugar umbætur hafa orðið á vélinni síðan þá og FleXicut kerfi eru nú komin í notkun víða í Evrópu og Norður-Ameríku sem og um borð í frystitogurum. Við eigum jafnframt í nánu samstarfi við laxa framleiðendur í Noregi um að þróa FleXicut fyrir laxinn,“ segir Stella Björg Kristinsdóttir, markaðsstjóri fiskiðnaðar hjá Marel.
„Tækninni hefur fleygt það mikið fram á síðustu árum að innan skamms verður hægt að bjóða upp á nánast alsjálfvirka vinnslu á afurðinni, allt frá forskurði að pökkun, auk fullkominnar bestunar á virði hvers flaks.“
Með innleiðingu á FleXicut hefur Marel þróað ýmsar aðrar nýjungar sem gerir vinnsluferlið enn sjálfvirkara og skilvirkara. Tilkoma FleXitrim forsnyrtilínunnar á síðasta ári markar enn ein tímamót í hvítfiskvinnslu. Hún kemur í stað eldri snyrtilína sem fram til þessa hafa skipað stóran sess í fiskvinnslu á Íslandi. Vísir í Grindavík var fyrst til að taka forsnyrtilínuna í notkun.
Að sögn Ómars Enokssonar, vinnslustjóra hjá Vísi, sáust strax miklar breytingar á flæðinu í vinnslunni: „Nýja forsnyrtilínan jafnar flæðið á flökunum eftir snyrtingu og raðar sjálfvirkt inn á skurðarvélina,“ sagði Ómar.
„Þar sem við notum röntgentækni til að finna bein þá getur skurðarvélin sent upplýsingar til baka á starfsmanninn á línunni ef gallar koma upp og þannig náum við að sjálfvirknivæða gæðaskoðunina að einhverju leyti.“
Með tilkomu FleXitrim getur Marel boðið einstaka heildarlausn með sjálfvirkum bitaskurði og gæðaskoðun auk þess að halda fullum rekjanleika hvers bita, frá veiðum til neytanda. „Upplýsingar eru forsenda fyrir því að ná yfirsýn yfir framleiðsluna og undirliggjandi hugbúnaður skiptir þar sköpum, en íslenskir framleiðendur hafa verið mjög framsæknir á þessu sviði. Fjórða iðnbyltingin er þegar hafin og það verður spennandi að fylgjast með næstu skrefum í snjallvæðingu á fiskframleiðslu,“ segir Stella að lokum.
FleXicut kerfið og margt fleira verður til sýnis á bás Marel á Sefood Expo Global í Brussel, dagana 24.–26. apríl. Þann 26. september nk. býður Marel fiskframleiðendum á „Whitefish Showhow“, sem er einstök sýning í sýningarhúsi Marel í Kaupmannahöfn. Þar verður til sýnis allt það nýjasta sem er að gerast í tækniþróun hjá Marel; frá hugbúnaði til stakra véla og stórra vinnslukerfa. Nánari upplýsingar um Whitefish Showhow má finna á marel.is/wfsh.