Kolmunninn skilar miklu fyrir austan

Deila:

Höfuðborgarsvæðið ber höfuð og herðar yfir aðra landshluta þegar kemur að verðmæti landaðs fiskafla í júní. Heildarverðmæti aflans yfir allt land var þá 7,1 milljarður króna en verðmætið á höfuðborgarsvæðinu var 2,4 milljarðar.

Á heildina litið dróst verðmætið saman um 22% miðað við sama mánuð í fyrra en samdrátturinn kemur mjög misjafnlega út. Hann er 19,4% á höfuðborgarsvæðinu, en langmestur er hann á Vestfjörðum eða 55%. Einn landshluti sker sig úr hvað þetta varðar, Austurland, en þar jókst verðmæti landaðs afla um hvorki meira né minna en 51,4%.

Skýringin á samdrættinum almennt er lægra fiskverð því heildarafli í júnímánuði í ár var mun meiri en í fyrra eða 27% meiri. Vöxturinn er nær eingöngu í kolmunna, en það er skýringin á auknu aflaverðmæti á Austfjörðum. Mestu af kolmunnanum var landað til bræðslu á Austfjarðahöfnum og skilar það auknum verðmætum.

Verðmæti landaðs afla á Norðurlandi eystra varð rétt rúmlega einn milljarður króna, sem er aðeins 4,5% samdráttur sem bendir til aukningar á lönduðum afla. Suðurnes koma næst með 740 milljónir króna, sem er samdráttur um 37,6%. Næst kemur Austurland með 700 milljónir, þá Suðurland með 615 og Norðurland vestra með 589 milljónir. Á Vestfjörðum varð aflaverðmætið 392 milljónir og á Vesturlandi 316.

Deila: