Veiðisamstarfið reyndist vel

Deila:

„Þetta munar ekki mjög miklu í afköstum – við gætum sennilega veitt meira einir og sér. En með þessu móti er hægt að stýra flæðinu betur í vinnslunni. Þar munar miklu,“ segir Tómas Kárason, skipstjóri á uppsjávarskipinu Beiti NK um veiðisamstarfið sem skip Síldarvinnslunnar og Samherja áttu í á nýyfirstaðinni makrílvertíð. Skipin veiddu, eins og undanfarin ár, í púkk og skiptust á að sigla með aflann til hafnar.

Veiðisamstarf orðið algengara
Tómas segir að upphaf makrílvertíðarinnar í sumar hafi verið ákaflegaánægjulegt. „Við náðum að veiða svo mikið í íslensku lögsögunni. Venjulega höfum við verið mest í Smugunni en
núna náðum við miklu við Ísland,“ útskýrir hann og bætir við að það muni styrkja samningsstöðu Íslands þegar kemur að skiptingu veiðiheimilda í makríl á milli landa.

Eins og áður segir gerir veiðisamstarfið vinnslunni kleift að stýra betur flæðinu. Tómas bendir á að veiðisamstarfið hafi líka þann kost að ekki þurfi að bíða eftir plássi í löndun. „Þetta er
unnið jöfnum höndum og kvótanum skipt á milli skipanna. Þetta getur auðvitað verið flóknara þegar kemur að uppgjörinu en menn eru samt búnir að ná góðum tökum á þessu. Flestar útgerðirnar, sem eru með nokkur skip, eru komnar í þetta fyrirkomulag,“ útskýrir Tómas.

Nánar er rætt við Tómas, ásamt fleiri skipstjórum um nýliðið fiskveiðiár, í nýju tölublaði Ægis.

Deila: