26.000 fá leyfi til humarveiða

Deila:

Ríflega 26.000 manns í Noregi hafa nú skráð sig fyrir leyfi til humarveiða á þessari vertíð, sem hófst fyrsta október og stendur til áramóta. Langflestir þeirra eru frístundaveiðimenn sem mega veiða með allt að 10 gildrum. Flest leyfin eru gefin út við suðurhluta landsins.

Norsk stjórnvöld telja að úthlutun leyfa með þessum hætti, sem er ný af nálinni, muni leiða til betri veiðistjórnunar í framtíðinni. Vitað hafi verið að veiðar á humri væru miklar og að margir stunduðu veiðarnar. Nú muni hins vegar liggja fyrir hve margir muni stunda veiðarnar og hve mikið veiðiálagið verður. Að auki mun Hafrannsóknastofnunin hafa aðgang að veiðileyfishöfum og getur fengið hjá þeim upplýsingar um veiðarnar. Þegar þessar upplýsingar liggja allar fyrir, verður auðveldara að meta veiðiálagið og  ákveða hugsanlegar breytingar á stjórnun veiðanna.

Mikil ásókn hefur verið í veiðileyfin og tekur fólk vel í breytinguna, sem felur ennfremur í sér að veiðibann á frídögum fellur úr gildi, en stærðartakmarkanir hertar. Þannig verður bannað að taka stærri humar en 32 sentímetra að lengd, en hann má heldur ekki vera minni en 25 sentímetrar. Neðri mörkin eru til að friða ungviðið en þau efri til að stuðla að aukinni hrygningu stærri humars til viðhalds stofninum. Þá eru tímatakmarkanir á lagningu gildranna og hve lengi þær mega vera í sjó.

 

 

Deila: