Makrílvertíðin byrjar betur en í fyrra

Deila:

Víkingur AK kom til Vopnafjarðar síðdegis í gær með um 790 tonn af makríl. Þetta er önnur veiðiferð skipsins en áður hefur Venus NS landað tvívegis á Vopnafirði þannig að makrílvinnsla er komin í fullan gang hjá uppsjávarfrystihúsi HB Granda á staðnum.

,,Vertíðin fer betur af stað nú en í fyrra,“ segir Hjalti Einarsson, skipstjóri á Víkingi, en hann segir þó erfitt að ráða í vertíðarbyrjunina.

,,Hitaskilin eru nú mun vestar en fyrri ár en við höfum mest verið að veiðum suður af Vestmannaeyjum. Sjávarhitinn er um 11-12 gráður og aflinn hefur sveiflast mjög mikið. Stundum höfum við fengið góð hol en svo lítið sem ekkert þess á milli. Við hefðum gjarnan viljað finna makríl í veiðanlegu magni austar en menn hafa ekki gefið sér nægan tíma til að leita nægilega vel. Svo liggur munurinn milli ára e.t.v. í því að sumarið í ár er mun bjartara og hlýrra en sumarið í fyrra,“ segir Hjalti Einarsson í samtali á heimasíðu HB Granda.

Líkt og undanfarin ár gengur makríllinn upp með vestur- og austurströnd landsins. Vart hefur orðið við makríl inni á höfnum á Suðurnesjum en ekki hefur heyrst af því að uppsjávarskip hafi fengið afla vestanlands. Svo sem oft áður á makríllinn það til að ganga á síldarslóð en Hjalti segir að það hafi gengið blessunarlega vel að forðast að fá síld með makrílnum sem aukaafla í þessari veiðiferð.

Deila: