Gámavæðing í kjölfar lokunar Rússlands

Deila:

„Þegar það fréttist sumarið 2015 að Rússlandsmarkaður væri í þann mund að lokast vegna Úkraínudeilunnar er óhætt að segja að ákveðið skelfingarástand hafi gripið um sig í greininni. Á þessum tíma var makrílvertíð að hefjast og uppistaða aflans var hugsuð fyrir Rússlandsmarkað líkt og árin áður. Sú heimsmynd breyttist fljótt á þessum dögum og vikum sem í hönd fóru,“ segir Gunnar Kvaran, forstöðumaður útflutnings Samskipa sem fjallaði um málið á Sjávarútvegsráðstefnunni 2017 í Hörpu í síðasta mánuði. Þetta segir hann í samtali við Sóknarfæri í sjávarútvegi, blaði sem Athygli gefur út og er dreift með Morgunblaðinu. Þar segir ennfremur:

Gunnar Kvaran hjá Samskipum

Gunnar segir að verkefnið hafi verið sérlega krefjandi vegna þess að flutningi á uppsjávarafla hafi að mestu verið sinnt af erlendum 2000-5000 tonna bulkskipum sem hann segir nokkurs konar „fljótandi frystikistur“ þar sem varan er hífð um borð á brettum og miklu magni siglt á einn stað. Þannig höfðu flutningar á makríl og öðrum uppsjávarafurðum á Rússlandsmarkað farið fram. Bulkskipin sóttu vöruna til framleiðandanna vítt og breytt um landið yfir vertíðina og léttu þannig á

frystigeymslum. Íslensku skipafélögin sem sjá um mest af öðrum fiskútflutningi landsmanna hafa hins vegar skipulagt sína flutninga í kringum gámakerfi og hafa komið sér upp aðstöðu á nokkrum miðlægum stöðum við ströndina án tillits til þess hvort þar er uppsjávarvinnsla eða ekki. Það var því vandi á höndum þegar von var á miklum afla á land sem finna þurfti nýja markaði fyrir auk þess að koma vörunni til nýrra kaupenda.

Makríllinn unnin beint í frystigáma

„Hlutverk okkar hjá Samskipum var að finna leiðir til að koma afurðunum í gámum til nýrra kaupenda. Allt í einu voru svæði eins og vestur Afríka, Egyptaland og Svartahaf komin á radarinn.“ Hann segir að til að bjarga verðmætum hafi þurft í skyndingu að koma stórum hluta bulkflutninganna yfir í gámakerfið. Það hefði aldrei verið hægt að frysta allt þetta markílmagn nema vegna þess að það tókst að leigja hundruð frystigáma til viðbótar á stuttum tíma. Það var því framleitt beint í frystigámana og þeir síðan fluttir úr landi og mikið magn fór í geymslu í Hollandi sem og beint til nýrra markaðssvæða.“

Gunnar segir að þegar makríllinn fór að veiðast í einhverjum mæli við Ísland í kringum 2010 hafi legið beinast við að selja hann til Rússlands sem tók mikið magn og var sögulega sterkur markaður þegar kom að uppsjávarfiski. Þar voru í meginatriðum fáir stórir kaupendur og flutningsleiðirnar klárar. Þegar Rússlandsmarkaður lokaðist hafi menn hins vegar farið að kynna sér af alvöru makrílneyslu ýmissa annarra þjóða og þá kom í ljós að makríll er mjög útbreidd neysluvara víða um heim. Þannig hafi til dæmis Egyptaland og Vestur Afríka verið gríðarstórir kaupendur á makríl. „Árið 2015 tókst strax að selja mikið til vestur Afríku en salan þangað var hins vegar ekki jafnmikil í fyrra og í ár. Mesta aukningin hefur hins vegar verið á Svartahafssvæðið, til Eystrasalts, Egyptalands og Asíu.“

Nýir markaðir verða til

Aðspurður segist Gunnar telja að viðskiptin muni færast aftur til Rússlands þegar sá markaður opnast að nýju. „Þetta hefur verið mikilvægur markaður og saga viðskiptanna er mjög löng þannig að ég held að menn muni örugglega vilja taka upp þráðinn og senda afurðir aftur til Rússlands. Hvort það verður í sama mæli og áður veit ég ekki. Þessi uppákomu hefur fært okkur nýja markaði sem ég geri ráð fyrir að menn vilji rækta áfram,“ segir Gunnar. Hann segir að innflutningur til landsins á hverjum tíma sé sú stærð sem drífi flutningakerfi íslensku skipafélaganna. Nú þegar innflutningur er í hæstu hæðum er mikil geta fyrir hendi í útflutningi. Það hafi hins vegar ekki verið fyrr en eftir hrun 2008/2009, þegar innflutningur dróst saman, að það varð í fyrsta skipti jafnvægi í flutningskerfinu milli innflutnings og útflutnings. Frá 2010 hafi innflutningurinn byrjað að vaxa aftur og í dag séu innflutningstölurnar orðnar svipaðar því sem sást fyrir hrun á árunum 2006 til 2007. Í dag reka Samskip fjögurra skipa kerfi en síðastliðið hálft ár hefur félagið verið með aukaskip í rekstri til að sinna innflutningskúfinum.

Strandflutningar komnir til að vera

Gunnar segir að strandflutningarnir hér heima, sem hófust að nýju fyrir fjórum árum, gangi vel. „Við byrjuðum eftir mikinn undirbúning í mars 2013 og settum eitt skip á ströndina sem sigldi á hálfsmánaðar fresti.

Síðan eru liðin fjögur ár og við höfum bætt við öðru skipi og siglum vikulega á ströndina og höfum fengið mjög góð viðbrögð við þessu og á landsbyggðinni er eðlilega mikil ánægja með þetta.“ Siglt er á Ísafjörð, Sauðárkrók, Akureyri og síðasta höfn er Reyðarfjörður þaðan sem siglt er beint á Færeyjar, Immingham og Rotterdam. Hann segir að haldið verði áfram að þróa strandflutningana. Með þeim hafi flutningskostnaður á landsbyggðinni snarlækkað um leið og þungaflutningar um vegakerfið hefði dregist mjög saman. „Það má í stórum dráttum segja að fiskflutningar um þjóðvegina sem áður var ekið til útskipunarhafna í Reykjavik og á Reyðarfirði heyri nú sögunni til,“ segir Gunnar Kvaran, forstöðumaður útflutnings Samskipa.

Deila: