„Árið 2017 var erfitt ár fyrir sjávarútveginn“

Deila:

„Árið 2017 hefur verið nokkuð strembið fyrir sjávarútveginn hér á landi ef maður skoðar greinina í heild sinni. Það var sjómannaverkfall frá því um miðjan desember 2016 og fram í miðjan febrúar 2017. Síðan bættist við að gengi krónunnar styrktist mikið á fyrri hluta ársins, en tekjur útvegsins eru í erlendum myntum og kostnaðurinn að stórum hluta í íslenskum krónum. Vegna þessa drógust tekjurnar saman en kostnaðurinn, og þá sérstaklega laun, hefur almennt farið hækkandi. Því má segja að þetta hafi verið frekar erfitt ár fyrir sjávarútveginn,“ segir Haukur Ómarsson, forstöðumaður sjávarútvegsteymis Landsbankans í samtali við Sjónarfæri í sjávarútvegi, sem Athygli gefur út og dreift er með Morgunblaðinu. Þar segir hann ennfremur:

Uppsjávarvinnslan gengur best

Hann segir að vissulega sé afkoman mismunandi eftir útgerðaflokkum og tegundum fyrirtækja. Erfiðast hafi þetta umhverfi reynst fiskvinnslum án útgerða þar sem launahlutfall er yfirleitt frekar hátt og hráefnisöflun byggir alfarið á kaupum á markaði. Næst erfiðust sé staðan hjá stærri fyrirtækjum sem eru með útgerð og landvinnslu en hafa ekki náð að tæknivæðast sem skyldi. Sjávarútvegurinn er mannfrekur iðnaður með hlutfallslega háan launakostnað og fyrir vikið séu slík fyrirtæki ekki eins sveigjanleg og eigi erfiðara með að bregðast við og aðlagast breyttum aðstæðum. „Síðan koma fyrirtæki sem eru eingöngu í útgerð. Þau horfa fram á lækkandi tekjur en á móti kemur að þau eru sveigjanlegri. Oft eru þetta frekar fámenn fjölskyldufyrirtæki sem eru fljót að bregðast við og geta lækkað kostnað. Þá hjálpar að laun sjómanna eru tengd fiskverðinu og breytast í takti við það.“

Haukur segir að þau fyrirtæki sem standi best afkomulega séð séu þau sem stundi veiðar og vinnslu uppsjávartegunda. Afkoma þeirra sé ekki eins góð og hún hafi verið undanfarin ár en samt sem áður vel viðunandi. „Þetta eru gjarnan fyrirtæki sem eru komin lengst í tæknivæðingunni. Fyrirtæki sem hafa fjárfest hvað mest í nýjum skipum og búnaði standa yfirleitt betur í samkeppninni. Uppsjávarfyrirtækin eru flest með stórar og öflugar vinnslur þar sem sjálfvirkni er mikil og launakostnaður því hlutfallslega lægri.“

Spáir viðunandi afkomu 2018

Aðspurður um horfur á næsta ári telur Haukur líklegt að afkoma sjávarútvegsins verði viðunandi á heildina litið en ekki mikið umfram það. Staða helstu veiðistofna sé góð og áætlaður afli næstu ára líti út fyrir að geta orðið nokkuð stöðugur og góður. Þá sé efnahagsástandið gott en hins vegar muni laun halda áfram að hækka sem og annar rekstrarkostnaður. Hann segir afurðaverð nokkuð stöðugt en stærsti óvissuþátturinn sé gengið og hvernig það muni þróast. „Í dag eru menn að gera ráð fyrir að það verði áfram frekar stöðugt en sterkt. Stöðugleikinn skiptir gríðarlegu máli og allt bendir til að afkoman geti því orðið viðunandi.“

Aukin samþjöppun með hærri sköttum

Haukur segir stjórnvöld nú standa frammi fyrir stóru spurningunni um veiðigjöldin. „Sjávarútvegurinn getur vissulega borgað og hefur verið að borga veiðigjöld, en spurningin er hve há þau eiga að vera? Ef skattleggja á greinina jafnvel enn meira blasir við að félögin verða að halda áfram að hagræða, sameinast og stækka. Aukin skattlagning mun óhjákvæmilega leiða til aukinnar samþjöppunar. Sameiningar þurfa ekki endilega að þýða að minni fyrirtæki renni inn í þau stóru. Einyrkjar og minni fyrirtæki geta sameinast og myndað hagkvæmar rekstrareiningar. Ef menn vilja fjölbreytni og tryggja öll útgerðarform og sjávarútveg hringinn í kringum landið þá er ekki hægt að halda áfram að hækka skatta á greinina.“

Hann segir að aukin samþjöppun í sjávarútvegi þurfi ekki hafa mikil áhrif á byggðamynstrið í landinu. Nú þegar hafi orðið til stór sjávarútvegsfyrirtæki í hverjum landsfjórðungi sem muni halda áfram að stækka og eflast og halda uppi atvinnu hvert á sínu svæði, hér hafi stórbættar samgöngur hjálpað mjög mikið. Þetta þurfi því ekki að hafa í för með sér byggðaröskun en í framtíðinni verði til annars konar störf en fjölbreytnin í útgerð muni kannski minnka.

Samkeppni við erlenda banka

Aðspurður um þróun vaxta á næsta ári segir Haukur að undanfarin misseri hafi vextir af lánum til sjávarútvegsins verið tiltölulega lágir í erlendum myntum og hafi farið lækkandi. Ástæðan sé endurfjármögnun íslensku bankanna á hagstæðari kjörum sem viðskiptavinir þeirra njóti góðs af. „Ég tel vaxtakjör nokkuð góð í dag og því ætti þau ekki að vera sérstakt áhyggjuefni fyrir greinina.“ Haukur segir erlendar fjármálastofnanir, og þá sérstaklega norska banka, horfa talsvert til Íslands. Það sé ekkert launungarmál að við endurnýjun fiskiskipaflotans undanfarið hafi ný skip oft verið byggð að norskri fyrirmynd og þá hafi norskir bankar boðið fjármögnun á kjörum sem íslenskir bankar hafi ekki getað keppt við. Þannig hafi endurnýjun togaraflotans undanfarin misseri að miklu leyti verið fjármögnuð af erlendum lánastofnunum. Hann bendir á að norsku bankarnir séu mjög sterkir og hátt metnir og njóti kjara samkvæmt því. „Ég geri ráð fyrir að það verði áfram einhver munur á kjörum sem við getum boðið í samkeppni við stóra erlenda banka en samkeppnisstaða íslensku bankanna fer batnandi og er ekki eins ójöfn og hún var. Nálægðin við viðskiptavinina styrkir líka okkar stöðu og við erum mun sveigjanlegri og getum boðið betri þjónustu en þeir. Þetta er hins vegar eitthvað sem viðskiptavinir þurfa bara að vega og meta í hvert sinn.“

Fiskeldið að stórum hluta í eigu Norðmanna

Haukur segir þróunina í fiskeldi hér á landi á síðustu árum mjög athyglisverða og spennandi og að þar séu mikil tækifæri sem geti haft umtalsverða þýðingu fyrir þjóðarbúið ef vel tekst til. „Eftir að Norðmenn komu inn í fiskeldið hér fyrir um einu og hálfu ári hefur orðið gríðarleg breyting sem er að færa fiskeldið á Íslandi upp á nýtt og hærra stig. Þeir komu með mikið fjármagn, þekkingu og reynslu inn í greinina þannig að hægt hefur verið að fjárfesta í nýjasta búnaði og tækni. Saga fiskeldisins hér á landi hefur verið löng og stopul og sú uppbygging sem hófst fyrir 5-7 árum var hæg og einkenndist af vanefnum. Með aðkomu Norðmanna varð gjörbreyting sem skipti sköpum fyrir greinina.“

Í dag er talið að Norðmenn eigi um 50% hlut í fjórum stærstu fiskeldisfyrirtækjunum á Íslandi. Aðspurður um erlent eignarhald í íslenskum sjávarútvegi segir hann að alltaf hafi verið nokkur áhugi meðal útlendinga að eignast hlut í íslenskum útgerðum og fiskvinnslu en reglurnar hafi bæði verið stífar og skýrar og því hafi aldrei orðið neitt úr slíkum áformum. „Hins vegar veit ég ekki til þess að það séu neinar takmarkanir á erlendu eignarhaldi í fiskeldi á Íslandi. Það er sjálfsagt eitthvað sem mun koma til skoðunar,“ segir Haukur Ómarsson forstöðumaður sjávarútvegsteymis Landsbankans.

Deila: