Verkföll ekki á dagskrá

Deila:

Kjarasamningar sjómanna hafa verið lausir frá árslokum 2019 og ekki verður séð að mikill gangur sé í viðræðunum. Sjómenn slitu þeim í nóvember í fyrra en þráðurinn hefur síðan verið tekinn upp að nýju og hálfsmánaðarlegir fundir eru á skrifstofum ríkissáttasemjara með samninganefndum sjómanna og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS).Fjallað er um stöðuna á ruv.is

Valmundur Valmundsson er formaður Sjómannasambands Íslands. Þrátt fyrir þennan hægagang í viðræðum segir Valmundur að verkföll séu ekki á dagskrá. „Það var ekki vilji til þess hjá félagsmönnum,“ segir Valmundur, þótt hann telji að þolinmæðin þrjóti á endanum.

En hvað skýrir þetta langlundargeð sjómanna? Þótt kjaraviðræður eigi það til að dragast úr hófi, eru ekki margar stéttir sem eiga því að venjast að kjarasamningar séu lausir árum saman.

Þetta er ekki einsdæmi í tilviki sjómanna. Síðast voru kjarasamningar lausir í sex ár fyrir undirritun.

Launakerfi sjómanna er ólíkt flestum öðrum stéttum, því í stað þess að krónutala launa sé ákvörðuð í samningi fá þeir greiddan hlut af aflaverðmæti. Fyrir vikið standa laun ekki endilega í stað þótt engir samningar séu í gildi, svo fremi sem virði aflans eykst. Hjá öðrum stéttum myndi samningsleysi þýða óbreytt laun.

Kauptrygging sjómanna, lágmarkslaun sem sjómönnum eru tryggð óháð afla, hefur þó staðið í stað.

En hverjar eru kröfur sjómanna?
Sú fyrsta, að sögn Valmundar, er að greiðslur útgerðanna í lífeyrissjóð verði hækkaðar úr 8% í 11,5%. Þessi hækkun gekk í gildi í stærstu kjarasamningum á almennum vinnumarkaði um mitt ár 2018, en sjómenn hafa ekki fengið þessar kjarabætur.

Þá gera sjómenn kröfu um að fyrrnefnd kauptrygging hækki í samræmi við launahækkanir á almennum markaði. „Síðan eru almenn ákvæði um samræmi við útreikning fiskverðs,“ segir Valmundur, en hann telur að sátt muni nást um síðastnefna málið.

Sjómenn hafa áður gert athugasemdir við þær forsendur sem notaðar eru til að meta aflaverðmæti. Matið skiptir sjómenn máli enda laun greidd í hlutfalli við verðmæti aflans.

Aðspurður segist Valmundur alltaf reyna að vera bjartsýnn á gang mála. „Meðan það eru einhverjar viðræður í gangi þá trúir maður að það finnist einhver lausn.“

Deila: