Kaupendur grásleppuhrogna varfærir
Grásleppuveiðar máttu hefjast í gær, en áhugi á veiðunum er takmarkaður, vegna lítillar eftirspurnar eftir afurðunum. Kínverjar sýna kaupum á grásleppubúkum mjög lítinn áhuga og hefur fengist undanþá frá því að koma með grásleppuna heila í land.
Fjallað er um stöðuna á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda: „Kaupendur grásleppuhrogna eru afar varfærnir í upphafi vertíðar hvað varðar magn og verð sem þeir munu bjóða. Upplýsingar benda til að vel hafi gengið að selja kavíarinn á sl. ári miðað við aðstæður og verð nokkuð stöðugt. Á síðasta ári varð smávægileg lækkun milli ára, en verð kavíars þó hærra en á árinu 2019.
Heildarafli á síðustu vertíð jókst um 40% frá árinu 2020, þó það ár hafi fyllt tíu ára meðaltal veiða. Umreiknuð heildarveiði á grásleppu til hrogna nam 14.200 tunnum sem var 56% heimsveiðinnar. Á Grænlandi var veiðin stöðvuð við 8.600 tunnur þar sem ekki lá fyrir sala á meira magni. Alls voru þjóðirnar tvær því með 90% heimsaflans.
Þó kavíarinn hafi haldið verðgildi sínu er ekki sömu sögu að segja um útflutningsverðmæti á hrognunum. Eins og sést á grafinu sem hér fylgir var verð á síðasta ári það lægsta sem sést hefur í áratug. Það endurspeglar verð til sjómanna sem segja að á vertíðinni sem í hönd fer verði að koma til verðhækkun til að tryggja veiðar.“