Blængur með blandaðan afla

Deila:

Frystitogarinn Blængur NK landaði í Neskaupstað á föstudag að lokinni 24 daga veiðiferð. Aflinn var 536 tonn upp úr sjó að verðmæti 160 milljónir króna. Bjarni Ólafur Hjálmarsson skipstjóri segir að aflinn sé mjög blandaður en þó mest af karfa.

„Við byrjuðum veiðiferðina fyrir suðaustan land en héldum síðan á Vestfjarðamið þar sem við vorum lengst af. Síðustu vikuna vorum við þó á Melsekk og Selvogsbanka í leit að karfa. Fyrsta hálfa mánuðinn voru nánast samfelldar brælur en síðasta vikan var aftur á móti góð veðurfarslega. Það hefur gengið vel að vinna fiskinn um borð og ekki undan neinu að kvarta hvað það varðar,“ segir Bjarni Ólafur í samtali við heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Gert var ráð fyrir að Blængur héldi til veiða á ný í gærkvöldi.

Ljósmynd Smári Geirsson.

 

Deila: