Það er sóknarhugur í okkur

Deila:

Verkefnin eru mikil hjá Skaganum 3X um þessar mundir. Frágangur búnaðar í nýja íslenska togara, niðursetning hátæknivinnslu fyrir uppsjávarfisk í hollenskt fiskiskip og fjölmörg önnur verkefni austan hafs og vestan. Starfsmönnum fer fjölgandi og nú eru þeir komnir yfir 200. Skaginn, 3X Technology og skipasmíðastöðin Þorgeir og Ellert vinna nú saman en hið nýja vörumerki þessara þriggja fyrirtækja, Skaginn 3X, var kynnt í ársbyrjun. Þar kemur saman þekking og reynsla þriggja fyrirtækja sem þjónusta sjávarútveg og fleiri atvinnugreinar víða um heim. Starfsstöðvarnar eru á Akranesi og Ísafirði.

„Mikill kraftur hefur verið í nýsköpun og vöruþróun hjá okkur. Fyrirtækið samanstendur að segja má af vöruþróun, sölu, þjónustu, smíði og afhendingu á tækjabúnaði. Langmest fyrir sjávarútveginn en við erum samt líka að vinna okkur töluvert inn í framleiðslu á kjöti og kjúklingi. Við höfum náð ágætis árangri á því sviði með frysta í Brasilíu og nú að undanförnu í Síle líka,“ segir Jón Birgir Gunnarsson, yfirmaður markaðs- og sölumála hjá fyrirtækinu.

Innrétta hvern togarann á fætur öðrum

IMG_7471„Aðalmarkaðirnir sem við höfum verið að sinna eru langmest á Íslandi og Færeyjum. Við erum líka með töluvert af verkefnum í Norður-Ameríku og á Bretlandseyjum og norður og vesturhluta Evrópu. Þá hefur mikið verið að gerast í Rússlandi undanfarið. Við erum svo lítið núna að uppskera allt sem  við höfum sáð í vöruþróun. Það er verið að innrétta hvern togarann á fætur öðrum með nýrri tækni í undirkælingu í nýju ferskfisktogurunum, þrjú skip hjá HB Granda og eitt hjá Fisk Seafood, sem komið var með þessa tækni í eldri togara líka. Þá er að auki sjálfvirkt lestarkerfi í HB Grandatogurunum og ný og betri aðferð við blæðingu. Það er því mikill atgangur hjá okkur og við erum stöðugt að bæta við mannskap. Nú er það er orðin ein af áskornunum í starfseminni, að ná í nógu mikið af góðu fólki. Nú er fjöldinn kominn eitthvað yfir 200 í það heila. Þar af er nokkuð af erlendum starfsmönnum sem vinna hér í smiðjunni. Við leitum því ekki aðeins útfyrir Akranes og Ísafjörð eftir fólki heldur einnig út fyrir landsteinana.

IMG_7478

Skaginn 3X er í leiðandi stöðu í framleiðslu og uppsetningu á uppsjávarkerfum. Þar er um að ræða bæði uppsetningu á heildarkerfum, heilu verksmiðjunum og það er hlutur sem hefur verið tekið eftir hvað við höfum getað ráðist í stór verkefni og leyst þau mjög hratt. Þar má tildæmis nefna uppsjávarvinnsluna hjá Eskju á Eskifirði. Það liðu ekki nema nokkrir mánuðir frá því að skrifað var undir samninga þar til vinnsla var byrjuð í nýju húsnæði með allan búnað nýjan. Það er svolítið magnað. Svo er annað mjög stórt verkefni í undirbúningi en ekki hægt að skýra alveg frá því hvert það er,“ segir Jón Birgir.

Mikil fjölgun starfsmanna

Stærsti hópurinn hjá fyrirtækinu er með vélvirkjun sem grunnmenntun. Mikið af vélsmiðum sem er að smíða, setja saman og prófa búnaðinn. Þessir starfsmenn eru líka að fara í uppsetningar bæði á landi og um borð í skipunum. Koma búnaðinum af stað, kenna á hann og sjá um að viðskiptavinurinn sé ánægður og fái það sem hann bað um. „Svo hefur verið að aukast hjá okkur á síðustu tveimur árum að við erum með eigið fólk í stýringum og rafmagni. Rafvirkjar og hugbúnaðarfræðingar eru því vaxandi hluti starfsmanna hjá okkur. Tækjabúnaðurinn sem við erum að framleiða, er alltaf að verða fullkomnari og stýriþátturinn alltaf að verða mikilvægari og ef illa fer, gengur ekki fyrir okkar að skjóta okkur á bak við það að við séum ekki með nógu góða undirverktaka. Við viljum því gera þetta allt sjálfir.

Starfsmenn á verkstæði voru í matarhlé en nokkrir þeirra stilltu sér upp fyrir ljósmyndun.

Starfsmenn á verkstæði voru í matarhlé en nokkrir þeirra stilltu sér upp fyrir ljósmyndun.

Þá erum við að taka í notkun tölvustýrðar skurðarvélar, beygjuvélar og auka sjálfvirkni í rennibekkjum og fræsingu. Þannig erum við að auka afkastagetuna verulega. Við þurfum svo að vera með fólk sem ræður við að stjórna þessum nýju vélum.

Við erum svo bæði með véltæknifræðinga og véliðnfræðinga, vélaverkfræðinga og svo rafmagnstækni- og iðnfræðinga, sem eru að hanna tækin og vinna teikningar og fleira. Svo eru einhverjir að koma úr nýjum námsbrautum eins og megatronic sem er sambland af véla- og rafmagnsstýringum,“ segir Jón Birgir.

Iðnmenntun mikilvæg

Hann hefur ákveðnar skoðanir um starfsmenntun og iðnnám. Þegar rætt var við hann voru mörg hundruð krakkar að kynna sér starfsemina á Akranesi, efstu bekkir í grunnskólum eða krakkar sem þurfa að fara að velja sér námsbrautir af stóru svæði af Akranesi og umhverfi.

„Okkur finnst  mikilvægt að reyna að hjálpa þessum krökkum að skilja hvað iðnmenntun getur verið gagnleg og skemmtileg. Og líka að slíkt nám er enginn endapunktur. Ef þú lærir vélvirkjun til dæmis eru lítil eða engin takmörk á því hvers konar störf þú getur unnið við eða byggt ofan á þá menntun. Það  þarf ekki að þýða að sitja inni í lokuðu herbergi og gera við vél allan tímann, þú getur verið í smíði eins og hjá okkur eða í uppsetningu eða starfið þróast yfir í að teikna og hanna allt mögulegt. Mér finnst það vera mjög vanmetið hvað  iðnmenntun er bæði gagnleg og skemmtileg. Ég held ég hafi heyrt að það séu allt upp í 70% brottfall ungra stráka sem byrja í menntaskóla og ætla í stúdentspróf. Ég velti því fyrir mér hvort stór hluti af þessum hóp ætti ekki betur heima í iðnnámi. Þá séu í fyrsta lagi meiri líkur á því að þeir klári, því námið er skemmtilegra og meira verklegt. Það felst ekki bara í bóklestri. Í öðru leyti að flosni þeir upp úr námi, séu þeir að mörgu leyti komnir í betri störf en ella. Mér finnst iðnnámið ekki nægilega metið og skortur á iðnmenntuðu fólki getur til dæmis orðið fyrirækjum eins og okkar fjötur um fót, gæti staðið í vegi fyrir því að þau vaxi eins og þau þurfa. Þetta er störf sem skapa alvöru verðmæti og veita því meiri stöðugleika ef kemur til erfiðleika í efnahagslífinu.“

Hópur grunnskólanema var að koma í heimsókn til að kynnar sér starfsemi Skagans 3X.

Hópur grunnskólanema var að koma í heimsókn til að kynnar sér starfsemi Skagans 3X.

Hefur reynt á þolrifin

En við snúum okkur aftur að þeim verkefnum, sem eru í gangi núna, nánast raðsmíðaverkefnum í þessa nýju ísfisktogara,  að koma þessum nýja kælibúnaði  í skipið hjá Fisk Seafood og því sama auk sjálfvirkra lestarkerfa hjá HB Granda. „Engey, fyrsti togarinn í þessari línu, er búin að vera á sjó í nokkra mánuði og það hefur þurft að fylgja henni eftir eins og þarf alltaf með ný skip og nýjan búnað. Það sem hefur komið í viðbót þar er að það er svo mikið af nýjum vörum og aðferðum. Þar er í fyrsta skipti sjálfvirkt lestarkerfi þannig að engan mannskap þarf í lestina. Það hefur aldeilis  reynt á þolrifin hjá okkur og hjá HB Granda að koma því öllu af stað. Það er svo að sanna sig núna hve miklum ávinningi þetta er að skila; hvað löndum tekur styttri tíma og sérstaklega hvað störfin um borð eru miklu áhættuminni og léttari og fljótlegra að koma aflanum kældum niður í lest íslausum.  Engeyin er semsagt komin af stað og við höfum lært helling af því og svo er núna verið að vinna í Akurey og Drangey og síðan Viðey, þegar hún kemur og það er verkefni sem á eftir að endast okkur í nokkrar vikur.

Uppsjávarverksmiðja um borð í skip

Svo erum við að vinna í verkefni fyrir samstæðu sem heitir Cornelis Vrolijkog fyrirtæki í eigu þess sem heitir France Pélagique og er í Holllandi. Þeir eru að láta smíða fyrir sig nýtt skip sem verður í veiðum á uppsjávarfiski. Þar erum við í fyrsta sinn að að taka álíka tækni eins og og er til dæmis í Eskju og koma því fyrir um borð í skipi. Þar erum sem sagt að fara að stærðarflokka og tegundagreina eins mikið og hægt er mjög blandaðan  afla sem er  tekinn um borð í skipið og settur í rsw-kælitank fyrir vinnslu. Þá er hann stærðarflokkaður og greindur með tölvusjón, bæði eftir stærð og tegund og fer þaðan í sjálfvirka pökkun, sjálfvirka frystingu, pökkun og röðun á bretti og síðan flutning  niður í lest.

Þetta er gríðarlega stórt og mikilvægt verkefni með miklu af nýjungum. Í því felst líka áskorun í því að taka eitthvað sem er þekkt og hefur gengið upp í landi og koma því um borð í skip við miklu erfiðari og þrengri aðstæður. Veiðarnar verða stundaðar niðri við Afríku og aflinn mjög blandaður og þeir kalla þetta Atlantic mix.

Við sjáum þetta líka í verkefni sem við erum að vinna við austurströnd Rússlands. Þangað fóru um tíu manns frá okkur til Kúrileyja, sem er mjög afskekkt svæði. Þar settu þeir upp stærðarflokkara og kerfi í kringum hann fyrir þær tegundir sem  þeir eru með þar, sardínur og fleira. Það er svolítið gaman að sjá hve víða íslenska þekkingin er farin að breiða úr sér, þegar við erum komir á afskekktar eyjar í Kyrrahafinu,“ segir Jón Birgir. „Það er mikið að gera og mörg verkefni í pípunum. Það er sóknarhugur í okkur.“

Sex fyrirtæki bjóða heildarlausnir saman

En Jón Birgir er hvergi hættur. Skaginn 3X er í nýju samstarfi 6 íslenskra fyrirtækja undir merkinu Knarr og hugmyndin er sú að geta mætt til útgerða á Íslandi og erlendis og boðið heilt fiskiskip. „Þarna eru  fyrirtæki með fjölbreytta þekkingu og reynslu og saman boðið með heildarlausnir í fiskiskipum. Brimrún er fremst á heimsvísu í stýrikerfum og hönnun búnaðar í brúnna, fiskileitar- og siglingartæki og allt sem þar er. Kælismiðjuna Frost þekkja margir en það er framúrskarandi kælifyrirtæki sem við höfum unnið mjög mikið með í okkar lausnum. Naust Marine er svo með vindurnar. Nautic og Skipatækni eru bæði skipahönnuðir og hafa hannað nýtt skipslag og þetta nýja stefni, sem einkennir nýju skipin sem nú eru að koma til landsins. Svo erum það við  Skaginn 3X en öll koma fyrirtækin úr sitthvorri áttinni með sitthvora þekkinguna, en geta saman leyst heildar dæmið. Þannig erum við komnir með ákveðna heildarlausn eins og Norðmenn hafa til dæmis verið að gera og eru með fyrirtæki utan um það. Við teljum okkur vera með betri tækni og lausnir en þeir. Þetta er þegar farið að vekja verulega mikla athygli og margir sem eru að tala við okkur um heilu skipin og jafnvel raðsmíðaverkefni.  Það er mest í Rússlandi en aðilar hér heima eru einnig að tala við okkur, sömu sögu er að segja í Noregi og einhver áhugi er úti í Bandaríkjunum. Skipin geta verið smíðuð þar sem það hentar, í hvaða landi sem er hverju sinni, en þekking og geta til þess er ekki lengur til staðar á Íslandi.

Þetta er mjög spennandi og þegar að opna nýjar dyr fyrir til dæmis Skagann 3X að taka þátt í þessu samstarfi. Við sjáum þetta sem  verkefni sem getur haft áhrif á þjóðarhag. Þetta er af þeirri stærðargráðu. Virkilega gaman að taka þátt í því.

Ef um ísfisk skip er að ræða kemur undirkælingin til sögunnar og mannlausa lestin og fyrir frystiskipin erum við með plötufrysta sem skera sig úr með kosti umfram það sem aðrir hafa verið að bjóða. Það er mjög  áþekkt því sem hefur verið að veita okkur þetta forskot í uppsjávarkerfunum. Frystarnir sameina kosti frystitíma eins og gert hefur verið í hefðbundnum plötufrystum, þar sem er pressa,  og gæðin sem lausfrystingin gefur. Við erum að frysta vöruna með því að snerta hana bæði að ofanverðu og neðanverðu án þess að beita hana þrýstingi. Ef þrýstingur er notaður getur fiskurinn verið að springa og uppbyggingin í öskjunum aflagast. Við náum þannig að nýta bestu kostina úr báðum þessum kerfum í einu.

Ný búnaður fyrir blæðingu

Svo er búnaður fyrir bæði fyrsti- og ísfiskskip, sem er ný vara sem er að fara í fyrsta sinn í prófanir í Engeynni nýju. Þar er um að ræða svokallað blæðihjól. Þar fiskinum safnað saman í hæfilega skammta sem passa  við næstu skref í vinnslunni. Þar byrjum við að halda utan um rekjanleikann. Við söfnum í blæðingu fiski í hjól sem er eins og hálfgerð þvottatromla þar sem við hreyfum við fiskinum á ákveðinn hátt til þess að örva blæðinguna og fáum mun betri blæðingu, fallegri og hvítari fisk en hefur nokkurn tíman sést áður. Þeir sem hafa skoðað þetta vel, hafa varla verið að trúa sínum eigin augum. Hve góðri blæðingu er hægt að ná í fiskinum með sjálfvirku felli á mjög skömmum tíma.  Það er því margt á döfinni hjá okkur, verkefnin fjölmörg og horfurnar góðar,“ segir Jón Birgir Gunnarsson.

Texti og myndir Hjörtur Gíslason. Viðtalið birtist fyrst í blaði Sambands stjórnendafélaga.

 

 

 

Deila: