Meiri tækifæri til að efla og bæta reksturinn á Akranesi

Deila:

„Við rekum fiskvinnslu án útgerðar í erfiðu rekstrarumhveri. Samkeppnin um hráefnið er mikil og ójöfn, gengið er sterkt og launahækkanir hafa verið margfaldar miðað við í nágrannaríkjum séu þær reiknaðar yfir í Evru. Ísfiskur hefur starfað í þessu andsnúna umhverfi í tæp 30 ár og einhvern veginn hefur tekist að halda þessu gangandi allan þann tíma enda með gott fólk í vinnu og góðan viðskiptavin í Bandaríkjunum. Við ætlum að halda áfram að berjast og tækifærin til að bæta og efla reksturinn eru meiri uppi á Akranesi en hér í Kópavogi þar sem farið er að þrengja að okkur,“ segir Albert Svavarsson framkvæmdastjóri Ísfisks í Kópavogi sem nýlega keypti fiskvinnsluhús HB Granda á Akranesi.

Albert Svavarsson framkvæmdastjóri Ísfisks ásamt konu sinni Jóhönnu Snorradóttur sem hann segir að sjái um hlutirnir séu í lagi. „Við hlökkum til að vinna með Skagamönnum að þessu verkefni og vitum að það verður tekið vel á móti okkur,“ segir Albert.

Albert Svavarsson framkvæmdastjóri Ísfisks ásamt konu sinni Jóhönnu Snorradóttur sem hann segir að sjái um hlutirnir séu í lagi. „Við hlökkum til að vinna með Skagamönnum að þessu verkefni og vitum að það verður tekið vel á móti okkur,“ segir Albert.

Stefnt að því að fjölga störfum

Hjá Ísfiski starfa um 40 manns við bolfiskvinnslu og segir Albert útlit fyrir að bróðurpartur fólksins muni fylgja þeim upp á Akranes þegar starfsemin flyst þangað í byrjun næsta árs. „Þegar við tilkynntum um flutninginn voru starfsmenn fyrst mjög tvístígandi en eftir því sem gefist hefur tími til að hugsa málið fjölgar þeim sem vilja koma með okkur.“ Hann segir að vegna þess hve fólk þurfi að verja stórum hluta launa sinna í húsnæðiskostnað í Reykjavík sé orðið erfitt að halda starfsfólki í framleiðslustörfum. Á Akranesi sé íbúðaverð hins vegar um 70% af því sem það er í Reykjavík og húsnæðiskostnaður því talsvert lægri. Þetta geri það fýsilegra að búa þar fyrir fólk sem þarf að koma sér þaki yfir höfuðið.  Hann segir stefnt að því að fjölga starfsfólki og á Akranesi sé mikið af vönu og góðu fiskvinnslufólki sem vonandi verði hægt að útvega verkefni. „Það spilar líka inn í ákvörðun okkar að á Akranesi verðum við með mun stærra húsnæði fyrir vinnsluna sem gefur okkur tækifæri til að auka verðmætasköpunina. Við hlökkum til að vinna með Skagamönnum að þessu verkefni og finnum fyrir miklum velvilja og vitum að það verður tekið vel á móti okkur.“

Albert segir að fyrirtækið verði rekið á sömu forsendum á Akranesi og það hefur gert í Kópavogi. Ísfiskur er með fullkomna fiskvinnslulínu með vatnsskurðarvél frá Völku og með lausfrysti og getur því framleitt fjölbreytta neytendavöru.  Fyrirtækið er fyrst og fremst í bolfiskvinnslu þar sem um það bil 40% framleiðslunnar er þorskur og 60% ýsa. Albert segir að í rýmra húsnæði geti fyrirtækið þjónað betur stærsta viðskiptavini sínum kanadíska fyrirtækinu Highliner Foods sem keypti Coldwater Seafood í Bandaríkjunum.

Fiskvinnsluhús HB Granda á Akranesi sem Ísfiskur hefur fest kaup á.

Fiskvinnsluhús HB Granda á Akranesi sem Ísfiskur hefur fest kaup á.

Ójöfn samkeppni og skortur á hráefni

Albert segir að vegna sterks gengis og hás launakostnaðar sé sífellt erfiðara að fá hráefni til vinnslunnar á innlendum markaði. Hann segir að við þetta bætist að samkeppni við fiskvinnslur sem reka líka útgerðir feli í sér mikla mismunun. Í gangi sé tvenns konar verðmyndun á afla. Annars vegar er það verðið sem greitt er á fiskmörkuðum og hins vegar svokallað viðmiðunarverð Verðlagsstofu skiptaverðs. Fiskvinnslur sem reka útgerð greiði viðmiðunarverð Verðlagsstofu fyrir aflann sem sé mun lægra en markaðsverðið. Þetta feli í sér samkeppnismismunun sem fiskvinnslur án útgerðar hafa reynt að fá leiðrétt meðal annars með málaferlum, en það hafi engu skilað. Albert undirstrikar að hann sé ekki að sakast við þau fyrirtæki sem njóta samkeppnismismunarinnar. „Það eru ekki þau fyrirtæki sem eru að svindla á okkur heldur er það kerfið sem er ósanngjarnt og hefur ekki fengist leiðrétt þrátt fyrir að til dæmis hafi verið tekið á svona löggjöf í Bandaríkjunum fyrir 100 árum. Stjórnendur fyrirtækjanna eru einfaldlega að nýta þá aðstöðu sem þeir hafa til að reka sín fyrirtæki eins vel og þeir geta. Ef stjórnvöld veittu mér svigrúm til að borga bara dagvinnulaun fyrir næturvinnu myndi ég sjálfsagt nýta mér það. En það breytir ekki því að það eiga allir að sitja við sama borð.“

„ Ástand krónunnar hefur leitt til stóraukins útflutnings á óunnum fiski til dæmis til Póllands þar sem það kostar 40-50 krónum minna að vinna fiskkílóið. Fyrir vikið hefur verið viðvarandi skortur á hráefni til vinnslu hér heima. Það sem er fyrst og fremst að drepa okkur er hvað við mikill afli er fluttur óunninn úr landi.“

Flokkur einkaframtaksins hefur villst af leið

Ekki er hjá því komist að spyrja Albert álits á nýrri ríkisstjórn sem var að taka við völdum daginn sem viðtalið fór fram.  „Þessi ríkisstjórn mun ekki gera neitt í þessum málum. Við höfum glímt við stjórnvöld í rúm 20 ár og við vitum að þessir þrír flokkar hafa ekki og munu ekki opna rifu á gluggann í þessum málum. Það eru frekar aðrir flokkar sem eru til viðræðu um það,“ segir Albert. Hann segir dapurlegt að  Sjálfstæðisflokkurinn, flokkur einstaklingsframtaksins, beiti sér fyrst og fremst fyrir hina útvöldu en ekki hina. „Þetta væri frábær flokkur ef hann hefði sömu gildi fyrir alla og starfaði með þau gildi að leiðarljósi sem hann var stofnaður til, en hann hefur villst af leið og ég myndi gjarnan taka þátt í að koma honum aftur á rétta braut ef það er þá hægt,“ segir Albert Svavarsson framkvæmdastjóri Ísfisks.

 

 

 

 

 

Deila: