Árleg æfing sprengjusérfræðinga haldin
Árleg æfing sprengjusérfræðinga, Northern Challenge, er haldin á Suðurnesjum um þessar mundir. Um er að ræða alþjóðlega NATO-æfingu sem Landhelgisgæslan stýrir og fer hún fram á starfssvæði Landhelgisgæslunnar á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og hafnarsvæðum í Helguvík, Höfnum, Garði og í Hafnarfirði. Þetta er í sautjánda sinn sem æfingin er haldin.
Tilgangur Northern Challenge er að æfa viðbrögð við hryðjuverkaárásum þar sem heimatilbúnum sprengjum hefur verið komið fyrir. Búinn er til samskonar búnaður og fundist hefur víðs vegar um heim og aðstæður hafðar eins raunverulegar og kostur er. Æfingin fer fram við fjölbreyttar aðstæður, t.d. á flugvelli, í höfnum, í skipi og við bryggju. Þá er jafnframt virkjuð sérhæfð stjórnstöð þar sem öll uppsetning og verkfyrirkomulag er samkvæmt alþjóðlegum ferlum Atlantshafsbandalagsins.
Æfingin veitir sprengjusérfræðingum, sem koma hvaðanæva að úr heiminum, einstakt tækifæri til að samhæfa aðgerðir auk þess að miðla reynslu og þekkingu sinni til annarra liða. Northern Challenge hefur notið mikilla vinsælda á undanförnum árum og hefur skipað sér sess sem ein mikilvægasta æfing sprengjusérfræðinga í Evrópu. Að þessu sinni eru þátttakendurnir frá 16 þjóðum og alls eru 25 lið skráð til leiks. Æfingin stendur yfir í um tvær vikur og að henni koma hátt í 300 manns.