Starfslokanámskeið hjá SVN

Deila:

Næstkomandi miðvikudag, 2. maí, verður haldið starfslokanámskeið á vegum Síldarvinnslunnar. Það er ætlað starfsmönnum í Neskaupstað sem eru orðnir 62 ára eða eldri. Námskeiðið verður haldið í Kreml og stendur frá kl. 13.00 – 16.00. Starfsmenn geta skráð námsskeiðssetuna sem vinnutíma.

Námskeiðið fjallar fyrst og fremst um fjárhagslega hlið starfsloka, en flókið getur verið að átta sig á þeim málum og ekki ráð nema í tíma sé tekið. Námskeiðið er haldið á vegum Félagsmálaskóla alþýðu og leiðbeinandi er Guðmundur Hilmarsson sem hefur mikla reynslu af slíku námskeiðahaldi. Námskeiðið er hluti af fræðsluáætlun Síldarvinnslunnar og sér Austurbrú um skipulag og framkvæmd þess. Efnistökin eru þessi:

Farið er yfir greiðslu ellilífeyris frá almannatryggingum og hvernig skattskyldar tekjur geta haft áhrif á ellilífeyri. Eftrtöldum spurningum verður svarað:

  • Hvernig er lífeyrir frá almennum lífeyrissjóðum uppbyggður, hver er upphæð lífeyris ?
  • Hvenær er hægt að hefja töku lífeyris frá almannatryggingum og lífeyrissjóðum ?
  • Hefur ellilífeyrir frá lífeyrissjóði áhrif á lífeyri frá almannatryggingum ?
  • Ef greitt hefur verið í séreignasjóð, hvenær er best að taka þann lífeyri ?

Áhugasamir geta skráð sig á námskeiðið með því að senda tölvupóst á sigrunv@austurbru.is eða með því að skrá sig á skráningarblöð sem liggja frammi á skrifstofu, í fiskiðjuveri og í fiskimjölsverksmiðju í Neskaupstað.

Sambærileg námskeið verða í boði fyrir starfsmenn Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði og í Helguvík en þau verða auglýst síðar.

Sjómenn á skipum Síldarvinnslunnar sem ekki eiga möguleika á að sækja umrædd námskeið en hefðu áhuga á því eru beðnir um að hafa samband við Hákon Ernuson starfsmannastjóra.

 

Deila: