Fjallaufsinn mættur

Deila:

Kristján E. Gíslason, skipstjóri á ísfisktogaranum Viðey RE, segir á heimasíðu Brims að veiðar hafi gengið ágætlega í sumar. Hann segir að þó ufsinn sé kominn sé ekki sömu sögu að segja um milliufsann, sem sé vænni. Hann láti bíða eftir sér. „Þetta er búið að vera með ágætum í sumar. Ég hef reyndar ekki verið um borð í nokkra daga en síðast þegar ég var með skipið rótfiskuðum við Fjöllunum, fengum hvort tveggja ufsa og karfa.”

Fram kemur að á Fjöllunum hafi áhöfnin á Viðey fengið um 80 tonn af fiski eftir sólarhring á veiðum; helming ufsa og helming karfa. „Ufsinn, sem veiddist, er hinn dæmigerði Fjallaufsi en milliufsinn, sem venjulega skilar sér þegar fram er komið á sumar, lætur á sér standa.”

Ferðinni var heitið norður á Vestfjarðamið og austur í Rekjafjarðarál. „Við fengum um 30 tonn af þorski af blandaðri stærð í Reykjafjarðarál. Við fórum svo í Nesdjúpið, sem gaf ágætan afla, og enduðum veiðiferðina á Látragrunninu. Þar var fín þorsk- og ýsuveiði en þorskurinn er á höttunum eftir síldinni sem hrygnir þarna að sumarlagi,” er haft eftir skipstjóranum en Viðey var með 190 tonna afla í veiðiferðinni – þ.e. fullfermi.

Deila: