Segir sig úr stjórn HB Granda
Útgerðarmaðurinn Guðmundur Kristjánsson, sem kenndur er við útgerðarfélagið Brim, hefur sagt sig úr stjórn HB Granda. Þetta kemur fram í tilkynningu sem send var Kauphöll Íslands í gær.
Guðmundur var kjörinn í stjórn HB Granda eftir að Brim keypti ríflega 34 prósent hlut í félaginu á tæplega 22 milljarða króna af Kristjáni Loftssyni og Halldóri Teitssyni en Kristján og Halldór áttu hlutinn í gegnum félögin Venus og Vogun.
Í júní ákvað meirihluti stjórnar HB Granda síðan að segja Vilhjálmi Vilhjálmssyni, forstjóra HB Granda upp störfum og ráða Guðmund í hans stað. Vegna óánægju með þá ákvörðun ákvað Rannveig Rist að ganga úr stjórninni. Annar stjórnarmaður, Anna G. Sverrisdóttir, hefur sagt opinberlega að forstjóraskiptin hafi verið ótímabær.