Alhliða aðkoma að landeldi

Deila:

EFLA hefur komið að hönnun og þróun á 32.000 tonna landeldisstöð fyrir LAXEY við Viðlagafjöru í Vestmannaeyjum. Ráðgjafar EFLU hafa verið verkefninu innan handar allt frá fyrstu hugmynd árið 2019 yfir í viðskiptaþróun, mat á umhverfisáhrifum, áætlanagerð, val á tæknilausnum og fullnaðarhönnun sem nú stendur yfir. Verkefnið er í hraðri uppbyggingu í Viðlagafjöru en stefnt er að fyrstu seiði komi í stöðina á haustmánuðum 2024.

Um er að ræða áframeldisstöð á landi sem verður byggð upp í sex áföngum. Í fullri stærð mun stöðin geta framleitt um 32.000 tonn af laxi á ári í Vestmannaeyjum. Hver áfangi inniheldur átta 5.000 m3 eldisker með tilheyrandi tæknibúnaði s.s. fóðurkerfum, súrefniskerfum, vatnsmeðhöndlun og varmaendurnýtingu.

Stöðin verður búin framúrskarandi tæknilausnum á öllum sviðum fiskeldisins til að tryggja sem bestar aðstæður fyrir fiskinn. Vatnsgæðum í kerjunum er stjórnað með blöndu af gegnumstreymi af nýjum sjó og endurnýttu vatni sem er hreinsað og loftað hringrásarvatn. Hönnun gerir ráð fyrir allt að 70% endurnýtingu á sjó í kerjunum. Eldisstöðin verður búin varmaendurnýtingarkerfum með forhitun á nýjum sjó með affallsvatni og topphitun með varmadælu.

Sérfræðingar frá öllum sviðum

EFLA er aðalhönnuður og -ráðgjafi LAXEY í verkefninu. Sérfræðingar EFLU sem koma að verkefninu eru af öllum sviðum fyrirtækisins og felst þátttaka þeirra m.a. í forathugun og frumgerð viðskiptaáætlunar, forhönnun fyrstu hugmyndar, mati á umhverfisáhrifum, leyfismál og kostnaðaráætlanir. Sem aðalhönnuður hefur starfsfólk EFLU komið að hönnun á sjávardælingu, vatnsmeðhöndlun, varmaendurvinnslu og varmastöð, fráveitu, jarðvinnu, lagnahönnun, BIM stjórnun og utanumhald um verkefnadrif verksins.

Einnig sinnti EFLA ráðgjöf við val á búnaði og þróun tæknilausna s.s. fóðurkerfi, súrefniskerfi, aflofturum, síum, dælum og öðrum vélbúnaði. Þá voru mannvirki s.s. eldiskör og aðrar byggingar hannaðar af starfsfólki EFLU sem og dreifikerfi raforku og varaafl.

Mikil þjónusta við landeldi

EFLA hefur unnið að fjölmörgum verkefnum fyrir iðnaðinn undanfarin ár samhliða hraðri uppbyggingu í greininni. Þar má nefna landtengingar fóðurpramma, kassaverksmiðju á Djúpavogi, og seiðeldisstöðvar á borð við Geo Salmo Laugum, Háafell Nauteyri og First Water í Öxnalæk. Í landeldi hafa sérfræðingar EFLU m.a. séð um BIM-stjórnun og samræmingu við byggingu landeldisstöðvar First Water í Þorlákshöfn. Einnig hafa þeir komið að hönnun og þjónustu við stjórnkerfi í landeldisstöðvum Samherja fiskeldis.

Stærstu verkefnin nú um stundir eru fjölþætt verkefni fyrir First Water við Laxabraut, Þorlákshöfn. Hönnun aðveitustöðva og varaaflstöðvar, vinnsluhúss og seiðeldisstöðvar. Að lokum má nefna að EFLA sinnir auk þess öðrum sérhæfðum verkefnum sem fela í sér eftirlit og rannsóknir.

Greinin birtist fyrst í Sóknarfæri

Deila: