Fjarar undan kolmunnaveiðinni

Deila:

Kolmunnaveiðinni sem verið hefur á Þórsbanka og í Rósagarðinum virðist vera að ljúka að sinni. Börkur NK landaði 1.700 tonnum í Neskaupstað sl. föstudag og Bjarni Ólafsson AK landaði svipuðu magni daginn eftir. Börkur fór ekki til veiða að löndun lokinni en Bjarni Ólafsson hélt hins vegar á miðin á ný.

Rætt var við Gísla Runólfsson skipstjóri á Bjarna Ólafssyni í gærmorgun á heimasíðu Síldarvinnslunnar og var heldur dauft í honum hljóðið. „Við erum úti í Rósagarði og hérna er nánast alveg dautt. Við munum skanna svæðið fram á morgundaginn og ef ekkert gerist verður haldið til hafnar. Það verður þó að hafa það í huga að nauðsynlegt er að fara út og leita, annars gerist ekki neitt. Nú eru bara fjögur kolmunnaskip hérna á miðunum en það fimmta, Beitir, er á landleið,“ segir Gísli.

Sturla Þórðarson skipstjóri á Beiti tók undir með Gísla og sagði að afar lítið væri að hafa. „Við erum á landleið með 320 tonn. Það hefur verið ákveðið að hvíla þetta um sinn. Aflinn hefur verið um það bil 5 tonn á tímann og það er allt of lítið,“ segir Sturla.

 

Deila: