Sjálfsafgreiðsla á fiski

Deila:

Allir hafa borgað, segja hjón á Tálknafirði sem reka litla fiskbúð þar sem fólk afgreiðir sig sjálft. Hjónin opnuðu búðina til að hægt væri að kaupa ferskan fisk í þorpinu. Frá þessu var sagt á ruv.is

Ekki hægt að kaupa ferskan fisk í sjávarplássi

Litla fiskbúðin á Tálknafirði lætur ekki mikið yfir sér en í henni er þó hægt að kaupa fisk allan sólahringinn. „Maður fékk stundum fyrirspurnir frá fólki hvort að það væri ekki hægt að fá ferskan fisk. Þá varð það frekar hissa að í sjávarplássi væri ekki hægt að fá ferskan fisk,“ segir Þór Magnússon, sjómaður og íbúi á Tálknafirði.

Heimamenn og ferðamenn í sömu vandræðum

Þór og Guðlaug létu því slag standa og opnuðu búðina og segja að henni hafi verið tekið vel. „Mjög vel, mjög vel. Og heimamenn mjög ánægðir og ferðamennirnir líka mjög ánægðirm,“ segir Guðlaug. „Heimamenn eiga í jafnmiklum vandræðum með að fá nýjan fisk eins og ferðamennirnir.“

Viðskiptavinir afgreiða sig sjálfir

Þetta er þriðja sumarið sem hjónin reka búðina. „Við kíkjum bara annað slagið á búðina og reynum að passa að það sé nóg til,“ segir Guðlaug. Í búðinni er sjálfsafgreiðsla og hingað til hafa allir verið heiðarlegir. „Þetta er hundrað prósent,“ segir Þór. „Annaðhvort borga þau í baukinn en svo mega þau líka leggja inn,“ segir Guðlaug.

Allt hráefnið af svæðinu

Allt hráefnið er af svæðinu en hjónin gera sjálf signa fiskinn, fiskibollurnar, súpuna og harðfiskinn. „Það er svolítil fyrirhöfn í þessu, þetta er drjúg vinna,“ segja þau. En þau útiloka ekki að halda þessu áfram næsta sumar. „Já, já, við vitum ekkert annað,“ segir Þór.

Ljósmynd  af bb.is

 

Deila: