Leggur til að Gildi selji hlut sinn í HB Granda

Deila:

Einar Hannes Harðarson, formaður Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur, lagði fram á fundi Lífeyrissjóðsins Gildis í gærkvöldi, að sjóðurinn seldi allt hlutafé sitt í HB Granda. Tillagan er svo hljóðandi:

„Undirritaður f. h. Sjómannafélags Grindavíkur (SVG) gerir þá tillögu að lífeyrissjóðurinn Gildi selji alla hlutabréfaeign sína í HB Granda hf. Grundvallast sú tillaga á mati meirihluta stjórnar SVG á því að Guðmundur Kristjánsson eigandi að stærsta hluthafa HB Granda hefur með ákvörðunum sínum síðastliðin misseri leynt og ljóst grafið undan stöðu sjómanna í landinu og unnið gegn hagsmunum þeirra.“

„Þetta var kynningarfundur en fundarstjórar töldu þetta mjög góða tillögu og vísuðu henni til stjórnar sjóðsins til frekari umfjöllunar og stjórn mun síðan svara mér,“ segir Einar Hannes í samtali við Kvótann.

Hann bendir á að Guðmundir hafi verið að selja frá sér nokkur skip og það bitni á Íslenskum sjómönnum. Hann sé búinn að tala í heilan hring á einum mánuði. Fyrst segi hann upp öllum sjómönnum á Helgi Maríu AK. Það sé vegna þess að það sé svo mikill karfakvóti á skipinu að það sé ekki nógu hagkvæmt að stunda svo miklar karfaveiðar á ísfisktogara. Hagkvæmara sé að taka karfann á frystitogara, Samt selji hann svo alla frystitogara sína. „Fréttamenn eru ekkert að skilja í dag, hvað ó orðum hans felst. Þeir apa bara upp eftir honum það sem hann segir,“ segir Einar Hannes og bendir á að á þessu ári hafi Guðmundur sagt upp 158 sjómönnum.

Einar segir að eftir fundinn hafa skapast jákvæðar viðræður um tillöguna enda hafi mönnum fundist hún skynsamleg. „Lífeyrissjóðurinn Gildi er hinn gamli lífeyrissjóður sjómanna og manni finnst í raun lífeyrissjóðurinn með sinn stóra hlut í HB Granda vera að taka þátt í því að leggja sjómannsstarfið niður, smátt og smátt,“ segir Einar Hannes Harðarson.

Deila: