HB Grandaskipin að klára makrílkvótann

Deila:

Makrílveiði austur af landinu er nú að glæðast á nýjan leik og frá Færeyjum berast þær fréttir að mikil veiði sé innan færeysku lögsögunnar og makríllinn stór og góður. Miklar heimildir eru enn ónýttar af íslenskum skipum, eða um 67.500 tonn af leyfilegum heildarafla. Það getur hins vegar verið fljótt að breytast ef makríllinn gefur sig og skipin sækja meira í hann. HB Grandaskipin eru að klára sinn kvóta en mörg önnur eiga töluvert eftir.

Nítján aflareynsluskip hafa veitt 96.600 tonn samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu og eiga þau eftir heimildir um á 52.700 tonn. Mjög misjafnt er hvað skipin eiga eftir að kvótanum. Þannig eru HB Grandaskipin lagt komin með heimildir sínar, en Venus með ríflega 10.200 tonna heimildir og Víkingur 10.740. Venus er kominn með 9.750 tonn samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu og Víkingur 8.135 tonn, en líklega vantar síðustu löndun inn hjá honum.

Vilhelm Þorsteinsson er með mestar heimildir, 13.800 tonn og samkvæmt stöðunni á aflastöðulistanum er afli hans orðinn 7.100 tonn. Vilhelm fyrstir aflann um borð og því ganga veiðarnar hægar en hjá þeim skipum veiða fyrir vinnslu í landi. Huginn VE er kominn með 6.850 tonn samkvæmt listanum en hann hefur nú heimildir til veiða á 12.000 tonnum. Hann frystir aflann um borð eins og Vilhelm.

Ásgrímur Halldórsson er kominn með 6.800 tonn og landar hann afla sínum til Skinneyjar-Þinganess á Höfn í Hornafirði þaðan sem skipið er gert út.  Verði veiði mikil getur afkastageta í landi hugsanlega orðið takmarkandi þáttur í veiðunum þar sem allt kapp er lágt á vinnslu makrílsins til manneldis.

Deila: