Skip HB Granda hætt á síldinni

Deila:

Skip HB Granda eru hætt á síldveiðum þetta árið en við taka veiðar á kolmunna þar til að loðnuvertíð hefst. Það var Venus NS sem kom með síðasta síldarfarminn til Vopnafjarðar en lokið var við löndun í lok síðustu viku.
Að sögn Ingimundar Ingimundarsonar, rekstrarstjóra uppsjávarskipa HB Granda, í samtali á heimasíðu HB Granda, voru Venus og Víkingur með alls um 23.000 tonna makrílafla í sumar og í haust og um 17.000 tonn af síld úr norsk-íslenska síldarstofninum og af íslenskri sumargotssíld.

Venus var í Reykjavík í gær og í dag þar sem veiðarfæri voru tekin um borð en vonast er til að skipið fari áleiðis á kolmunnamiðin út af Austfjörðum síðar í kvöld. Víkingur er hins vegar á miðunum.

Fyrirhugað er að hefja vinnu í bolfiskvinnslu HB Granda á Vopnafirði á mánudag eða þann 6. nóvember nk. en sú vinnsla er starfrækt á milli uppsjávarvertíða.
Mynd/HB Grandi: ESE.

 

Deila: