Þrír bræður sem allir hafa verið skipstjórar á Ásbirni RE

Deila:

Það er ekki óalgengt að sjómennskan leggist í ættir og að þrír bræður leggi hana fyrir sig sem ævistarf. Það er hins vegar einstakt að þeir verði allir yfirmenn á einu og sama skipinu þegar ekki er um fjölskyldufyrirtæki að ræða. Þannig er það þó með bræðurna Ólaf, Friðleif og Einar Bjarna Einarssyni af Álftanesi en þeir hafa allir verið skipstjórar á ísfisktogaranum Ásbirni RE. Friðleifur, sem jafnan er kallaður Leifur, er aðalskipstjóri Ásbjarnar RE. Einar Bjarni er fyrsti stýrimaður og afleysingaskipstjóri á sama skipi og Ólafur, sem nú er látinn, var um árabil með Ásbjörn RE sem skipstjóri.

Friðleifur 1 (2)

Þúfa, Fréttabréf HB Granda, náði tali af Leifi um borð í Engey RE, hinum nýja ísfisktogara HB Granda, á leiðinni úr skipasmíðastöð Celíktrans í Tyrklandi til Íslands en áhöfn Ásbjarnar RE flyst nú yfir á nýja skipið. Talið berst fyrst að sjómennskuferlinum. ,,Við bræðurnir erum aldir upp við sjóinn enda varla annað hægt á Álftanesi á þeim tíma. Afi gamli var sjómaður og var með trilluútgerð frá Álftanesi. Pabbi lagði ekki sjómennskuna fyrir sig en hann var þó alltaf á grásleppu á vorin og við bræðurnir byrjuðum ungir að róa með honum. Einhvern veginn æxlaðist það þannig að ég réð mig sem háseta á togarann Jón Vídalín ÁR frá Þorlákshöfn sem Meitillinn gerði þá út. Það var 5. febrúar 1980 þannig að það styttist í 37 ára starfsafmælið,“ segir Leifur.

Frá Jóni Vídalín og Þorlákshöfn lá leiðin svo yfir á Snorra Sturluson RE sem Bæjarútgerð Reykjavíkur (BÚR), einn af forverum HB Granda, gerði þá út. ,,Ég byrjaði hjá BÚR árið 1981 en staldraði stutt við. Ég fylgdi Ólafi Jónssyni, eða Óla ufsa eins hann er oft nefndur, yfir á Viðey RE sem Hraðfrystistöð Reykjavíkur gerði þá út. Ég fór svo í Stýrimannaskólann árið 1985 og útskrifaðist úr fiskimannadeildinni tveimur árum síðar. Einn af skólabræðrum mínum er Ingimundur Ingimundarson sem nú er útgerðarstjóri uppsjávarveiðiskipa HB Granda.“

Hraðfrystistöð Reykjavíkur sameinaðist Granda árið 1989, að því er Leifur best man, og í framhaldi af því tóku við árin á Ásbirni sem nú eru orðin 27 talsins. ,,Ég hef alltaf kunnað vel við mig í þessari vinnu og það er gott að vinna fyrir HB Granda. Auðvitað eru upp- og niðursveiflur í afkomunni. Þannig er það bara í þessu starfi. Almennt séð er ástand flestra nytjastofna í góðu lagi og framtíðin að því leyti er björt. Það eina, sem maður er ósáttur við, er að það hefði verið hægt að veiða miklu meira af þorski og karfa á undanförnum árum en ráðgjöfin sagði til um. Það þýðir þó ekkert að velta sér upp úr því.“

Miklu stærra skip

,,Mér líst mjög vel á skipið og útbúnaður og vistarverur eru allt aðrar og betri en maður hefur átt að venjast. Mér leist ekkert alltof vel á skipslagið þegar ég sá það fyrst á teikningum en það venst alveg ótrúlega vel. Við lentum í miklum mótvindi á Miðjarðarhafi, reyndar ekki með miklum öldum, en skipið reyndist mjög vel. Það er líka miklu stærra en Ásbjörn og munar þar ekki síst um það að Engey er fjórum metrum breiðari en gamla skipið. Þá eru olíutankarnir miklu stærri og nú getum við tekið olíu til mánaðar í senn. Það svarar til fjögurra venjulegra veiðiferða,“ segir Friðleifur Einarsson.
Sjá má fréttabréfið í heild á slóðinni hér að neðan:

https://www.hbgrandi.is/library/Sidumyndir—skjol/Frettabref/thufa_engey_april17.pdf

 

Deila: