Ekki verið að hægja á lögbundnu ferli

Deila:

„Ég leyni því ekki að ég vil, meðan að nefndin er að störfum, að menn hægi á þessum umsóknum sínum þangað til að við erum komin með skýra stefnu í laxeldis- og fiskeldismálum. Þar hef ég dregið fram að við verðum að taka mjög ríka afstöðu með lífríkinu, náttúrunni og umhverfinu. Og ég tel að hægt sé að samræma þessi atriði,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra í viðtali í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi.
„Það er augljóst að hér er ráðherrann ekki að vísa til þeirra umsókna sem þegar eru komin í vinnslu inni í þeim stofnunum sem fara með útgáfu starfsleyfa og rekstrarleyfa, þ.e Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar, MAST. Né heldur er verið að vísa til vinnu að umhverfismati á þeim frummatskýrslum sem lagðar hafa verið fram hjá Skipulagsstofnun.
Þau mál, umsóknir, sem um ræðir eru þegar komið í lögbundið ferli og málshraði þeirra stjórnast að sjálfsögðu ekki af ákvörðunum fiskeldisfyrirtækjanna, en ráðherrann beindi orðum sínum til forsvarmanna þeirra í fréttunum í gærkvöldi.
Það er því morgunljóst að sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra var að vísa til áforma sem nefnd hafa verið og EKKI eru komin í það lögformlega ferli sem lög um fiskeldi kveða á um.“
Þetta áréttaði Einar K. Guðfinnsson formaður Landssambands fiskeldisstöðva í viðtali í hádegisfréttum Bylgjunnar nú fyrr í dag.

Deila: