Vill auðlindagjald af laxeldi í sjó

Deila:

Sjávarútvegsráðherra telur að fiskeldisfyrirtæki eigi að greiða auðlindagjald þar sem þau reiða sig á takmarkaða auðlind. Hún bindur vonir við sátt um greinina með vinnu þverpólitískrar nefndar.

Leyfisveitingar og gjöld til skoðunar 

Í Kastljósi í gær var sagt frá því hvernig fiskeldisfyrirtæki keppast við að sækja um leyfi fyrir fiskeldi í sjó við Íslandsstrendur og hversu lítið greitt er fyrir leyfin. Leyfisveitingar og gjöld fyrir fiskeldi í sjó, eru meðal þess sem nefnd um stefnumótun í fiskeldi á vegum sjávarútvegsráðherra er með til skoðunar. Nefndin á að skila drögum að stefnumótun í sumar.

Takmörkuð auðlind

„Við viljum fjölga stoðunum í íslensku enhafnahagslífi en við þurfum líka að fara okkur hægt ef við viljum gera það rétt,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegsráðherra. Hún vill þverpólitíska umræðu um fiskeldið, sem sé takmörkuð auðlind.  „Greinin sem slík eins og aðrar atvinnugreinar sem að hafa aðgang og fá aðgang að takmarkaðri auðlind þurfa að greiða auðlindagjald. Hvaða leiðir við förum, það er sáttanefndar að finna út sem ég mun skipa innan tíðar, sem verður skipuð fulltrúum allra flokka.“

Vill skapa sátt um sjávarútveginn

Þá þurfi að skoða hvert auðlindagjaldið renni og þá vill Þorgerður Katrín meðal annars skoða hlutdeild sveitarfélaga og uppbyggingu innviða þar sem eldi fer fram. „En megin málið er að ná sátt bæði um sjávarútveginn og fiskeldið til lengri tíma það eru hagsmunir allra, samfélagsins og greinarinnar og ekki síður stjórnmálanna.“

Rætt verður við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sjávarútvegsráðherra í Kastljósi kvöldsins.

 

 

Deila: