VSV-styrkir til náms í skipstjórn og vélstjórn

Deila:

Vinnslustöðin gekk á dögunum frá styrktarsamningi við Stefán Inga Jónsson, skipverja á Brynjólfi VE, og nema í skipstjórn í Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum. Hann lýkur í vor þriðju önn í skipstjórnarnámi.

Stefán Ingi þarf að bæta við sig fjórum önnum til að ljúka fullu námi og það hyggst hann gera. Hann hefur stundað námið samhliða sjómennsku á Brynjólfi árið um kring og tekur sumarannir til að flýta fyrir sér. Þetta krefst auðvitað aga og skipulags en hreint engan bilbug er þar á kappanum að finna!

Lilja B. Arngrímsdóttir, sviðsstjóri mannauðs- og lögfræðisviðs VSV, samdi við Stefán Inga fyrir hönd félagsins:

„Við ætlum líka að styrkja einn sem byrjar í skipstjórnarnámi í haust og sömuleiðis áhugasama starfsmenn Hafnareyrar í vélstjórnarnámi í Framhaldsskóla Vestmannaeyja. Vinnslustöðin og nemarnir hafa gagnkvæma hagsmuni af svona styrktarsamningum. Við hjálpum þeim að komast fjárhagslega yfir hjalla í náminu og tryggjum þeim og okkur í staðinn starf/starfsmenn að námi loknu.“

Stefán Ingi Jónsson er 29 ára Vestmannaeyingur og hefur verið á Brynjólfi í fimm ár eða frá 2017. Hann var áður á vertíðum hjá fyrirtækinu frá 2009. Markmiðin eru skýr varðandi framtíðina enda rennur í honum ögn sjósaltað blóð, greinilega ættgengt:

„Ég fór fyrst á sjó 11 ára gamall, þá með pabba, vélstjóra á Drangavík. Þá var ég bara farþegi en 14 ára vann ég í fyrsta sinn á síldarvertíð – í landi .

Ég var kokkur á Brynjólfi í þrjú ár en sagði því starfi upp og gerðist háseti til að geta sinnt náminu betur. Eldhúsverkin voru of tímafrek.

Í vor fæ ég A-réttindi og get þá fengið undanþágu til að vera yfirstýrimaður og leysa af sem slíkur. Fyrir jólin fæ ég svo B-réttindi og get þá verið skipstjóri á Brynjólfi þegar ég næ tilskildum fjölda siglingatíma sem yfirstýrimaður.“

Deila: