Marel hyggur á hlutafjárútboð og skráningu í Euronext kauphöllina í Amsterdam

Deila:

„Marel hf. („félagið“ eða „Marel“), sem er í fararbroddi á heimsvísu í þróun og framleiðslu tækja, kerfa, hugbúnaðar og þjónustu fyrir matvælavinnslu á kjúklingi, kjöti og fiski, tilkynnir í dag að félagið hyggi á almennt hlutafjárútboð og skráningu („útboðið“) í Euronext kauphöllina í Amsterdam, til viðbótar við skráningu sína í Nasdaq kauphöllina á Íslandi. Í útboðinu verða boðnir til sölu allt að 100 milljónir nýrra hluta (sem samsvara um 15% af útgefnu hlutafé). Gert er ráð fyrir að skráning í Euronext kauphöllina í Amsterdam muni fara fram á öðrum ársfjórðungi 2019, háð markaðsaðstæðum.“ Svo segir í tilkynningu frá Marel. Þar segir ennfremur:

  • Skráning hlutabréfa félagsins í Euronext kauphöllina í Amsterdam, til viðbótar við íslensku kauphöllina, mun auka sýnileika Marel og aðgengi að breiðari hópi alþjóðlegra fjárfesta. Útboð á nýju hlutafé mun einnig styrkja fjárhagsskipan félagsins og verða hlutirnir skráðir í gjaldmiðli sem styður betur við stefnu félagsins um framtíðarvöxt og möguleg fyrirtækjakaup.
  • Marel var stofnað árið 1983 og er í dag leiðandi á sviði hátæknibúnaðar til vinnslu matvæla, heildarlausna, hugbúnaðar og þjónustu fyrir kjúklinga-, kjöt- og fiskiðnað. Yfir 6.000 manns starfa hjá félaginu í yfir 30 löndum og 6 heimsálfum. Heildartekjur Marel á árinu 2018 námu 1,2 milljörðum evra.
  • Í hópi viðskiptavina Marel eru bæði stór alþjóðleg fyrirtæki sem og fyrirtæki í fararbroddi á sínu landsvæði í um 140 löndum. Gott orðspor félagsins og traust langtíma viðskiptasambönd skila Marel breiðum tekjugrunni. Um 35% af heildartekjum félagsins koma frá þjónustu og sölu varahluta sem eru reglulegar tekjur og óháðar hagsveiflum og breytingum á eftirspurn á alþjóðamörkuðum.
  • Marel fjárfestir árlega um 6% af heildartekjum í nýsköpun og vöruþróun og hefur gert um árabil. Félagið hefur einnig þróað sinn eigin hugbúnað fyrir matvælavinnslu sem gerir vinnsluaðilum kleift að hámarka nýtingu og afköst, fylgja gæðastöðlum og tryggja matvælaöryggi með rekjanleika í hverju skrefi. Hugbúnaðurinn hefur verið settur upp í um 2.000 verksmiðjum um allan heim.
  • Vöru- og þjónustuframboð Marel gerir viðskiptavinum félagsins kleift að auka nýtingu og afköst, tryggja gæði og fæðuöryggi og bæta öll stig framleiðslunnar með tilliti til sjálfbærni og velferð dýra.
  • Stjórnendur Marel búa yfir áralangri reynslu og hafa skilað góðum rekstrarárangri. Aukin hagkvæmni í rekstri og sterkt sjóðstreymi hefur ennfremur stutt við áframhaldandi fjárfestingu í markaðssókn félagsins sem skilað hefur hluthöfum góðri arðsemi.
  • Marel stefnir að 12% meðalvexti á ári á tímabilinu 2017-2026, þar af um 4-6% með innri vexti og um 5-7% í gegnum fyrirtækjakaup. Á sama tímabili er gert ráð fyrir að markaður með búnað til matvælavinnslu fyrir kjúkling, kjöt og fisk muni vaxa um 4-6% árlega.1
  • Frá skráningu félagsins í Kauphöllina á Íslandi árið 1992 hafa heildartekjur þess vaxið að meðaltali um 22% á ári, bæði með innri og ytri vexti. Hluthafar félagsins eru um 2.500 talsins og er Marel langstærsta félagið á markaði hérlendis, en stærð þess nemur um 36% af markaðsverðmæti allra skráðra félaga í Nasdaq kauphöllinni á Íslandi. Tvíhliða skráning hlutabréfa félagsins í Euronext kauphöllina í Amsterdam er því eðlilegt næsta skref í frekari framþróun og vaxtarstefnu félagsins.

 „Þetta er stór dagur fyrir Marel, þar sem við tilkynnum um fyrirætlanir okkar um hlutafjárútboð og skráningu í Euronext kauphöllina í Amsterdam. Við störfum á ákaflega spennandi vaxtarmarkaði, þar sem aukin fólksfjölgun, stækkun millistéttarinnar og stækkun borgarsamfélaga drífur áfram eftirspurn eftir hágæða matvælum sem eru framleidd á sjálfbæran og hagkvæman hátt. Marel er staðsett í miðju þessara drifkrafta og í samstarfi við  viðskiptavini höldum við áfram að kynna hátæknivörur, hugbúnað og þjónustu sem eykur afköst og nýtingu og minnkar sóun. Skráningin í Euronext í Amsterdam mun styðja við markmið okkar um 12% árlegan meðalvöxt tekna á tímabilinu 2017-2026 sem byggir á öflugri markaðssókn og nýsköpun, samvinnu við lykilsamstarfsaðila ásamt kaupum á fyrirtækjum,“ segir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel.

 „Þetta er mikilvægur áfangi í sögu Marel sem hefur vaxið frá rótum sínum í Háskóla Íslands í að vera í fararbroddi á heimsvísu í þróun og framleiðslu tækja, hugbúnaðar og þjónustu fyrir matvælavinnslu á kjúklingi, kjöti og fiski. Skráningin í Euronext kauphöllina í Amsterdam kemur til viðbótar við núverandi skráningu á Íslandi og veitir betra aðgengi að alþjóðlegum fjárfestum. Útboð á nýju hlutafé mun einnig styrkja fjárhagsskipan félagsins og veita reynslumiklu stjórnendateymi okkar styrkan grunn og alþjóðlegan gjaldmiðil til að framfylgja metnaðarfullri vaxtarstefnu okkar,” segir Ásthildur Margrét Otharsdóttir, stjórnargormaður Marel.

Nánar má lesa um hlutafjárútboðið og skráninguna á eftirfarandi slóð.

https://marel.com/is/frettir/marel-hyggur-a-hlutafjarutbod-og-skraningu-i-euronext-kauphoellina-i-amsterdam-a-oedrum-arsfjordungi-2019/

Deila: