Mikill sjór kominn í skipið

Deila:

Mikill sjór er kominn í flutningaskipið Fjordvik sem strandaði í Helguvík á dögunum. Óttast er að það geti sokkið.  Vinna við björgun flutningaskipsins Fjordvik hélt áfram í Helguvík í í gær. Seinni partinn fór þó veðrið að setja strik í reikninginn, enda farið að hvessa hressilega samkvæmt frétt á ruv.is.

„Við svona aðstæður er auðvitað öryggið fyrir öllu og menn hættu aðgerðum klukkan fjögur þegar það fór að hvessa,“ segir Halldór Karl Hermannsson, hafnarstjóri í Reykjaneshöfn. „Og það hefur áhrif á starfið í heild, en við vonumst til að það lægi með morgninum og okkur sýnist að næstu dagar séu þokkalegir.“

Vona það besta

Í dag hefur verið unnið að því að losa öll spilliefni úr skipinu. Á morgun er svo stefnt að því að byrja að dæla sjó úr því.

„Það segir sig sjálft að eftir því sem lengra líður þá færist sjávarborðið hærra. Reyndar blekkir aðeins hækkandi sjávarstaða en ég held að það sé óneitanlega meiri sjór í skipinu í dag heldur en í gær.“

Hvað óttist þið helst?

„Við óttumst hið versta en vonum það besta og vinnum út frá því að við náum því besta. Það getur allt gerst en við höfum reynt að tryggja eins og hægt er að það gerist ekkert alvarlegt eins og að skipið sökkvi.“

Halldór segir að skipið sé illa farið og ekki víst að það geti flotið.

En hvað getur orðið um þetta skip? Hverjir eru möguleikarnir?

„Möguleikarnir eru nokkrir. Það er hægt að bjarga því, láta það fljóta og fara með það í þurrkví eða eitthvað slíkt til að gera við það. Ég veit ekki hvort það sé hægt að nota það áfram í siglingum eða gera það tilbúið til þess. Þá fer það væntanlega í úreldingu og verður rifið. Versti hlutinn er sá að það gerist eitthvað alvarlegt og að það fari þá á botninn.“

Að það hreinilega sökkvi?

„Að það hreinlega sökkvi,“ segir Halldór Karl.

 

Deila: