Útflutningsverðmæti 6% minna en í fyrra

Deila:

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 26,9 milljörðum króna í október. Það er tæplega 14% samdráttur miðað við október í fyrra. Þetta kemur fram í greiningu Radarsins, mælaborðs sjávarútvegsins. Fram kemur að samdrátturinn nemi 15% ef gengisbreytingar eru teknar úr jöfnunni.

Í fréttinni segir að útflutningsverðmæti allra afurðaflokka hafi dregist saman á milli októbermánaða 2022 og 2023, að ferskum afurðum og söltuðum og þurrkuðum afurðum undanskildum.

„Í fyrrgreindum samdrætti munar mestu um samdrátt á fiskimjöli, en því er slegið saman með lýsi á neðangreindri mynd. Nam útflutningsverðmæti þess rúmlega 1,3 milljarði króna nú í október og dróst saman um 2,3 milljarða á milli ára, eða sem nemur um 63% á föstu gengi. Næst mest munar um heilfrystan fisk (-22%) og þar á eftir flokkinn „aðrar sjávarafurðir“ (-26%), en þar undir teljast meðal annars loðnuhrogn. Eins var talsverður samdráttur í verðmæti útfluttrar rækju (-26%) en minni samdráttur var í öðrum vinnsluflokkum, það er lýsi (-5%) og frystum flökum (-5%),” segir í fréttinni.

Loks kemur þar fram að fyrstu 10 mánuði ársins hafi úthlutningsverðmæti dregist saman um 6%, frá sama tíma í fyrra, að teknu tilliti til gengisbreytinga. Sjá nánar hér.

Deila: