Eftirvænting fyrir sumarvertíð
Um þessar mundir er unnið hörðum höndum í fiskiðjuverinu í Neskaupstað við undirbúning fyrir vertíð. Búið er að ráða fjölmarga í vinnu fyrir sumarið og fastráðna fólkið er að snúa tilbaka eftir sumarfrí. Mikið kapp er lagt á viðhalds- og undirbúningsvinnu í fiskiðjuverinu fyrir vertíðina auk þess að fegra umhverfið í kringum fyrirtækið.
Megnið af sumarstarfsfólkinu er skólafólk sem er ánægt með að komast í þessi uppgrip sem vertíðarvinna er, góð laun og næg atvinna.
Fyrirtækið Skaginn er að bæta við nýjum frystiskápum og er reiknað með að afköst í frystingunni aukist enn meira en unnið hefur verið að því síðustu ár að byggja upp aukna afkastagetu. Aukning afkastagetu er liður í því að auka enn á verðmæti uppsjávarfisks með því að hafa afköst til að vinna hann á þeim tíma sem hann er verðmætastur og fylgja þannig eftir fjárfestingum sem átt hafa sér stað í stærri og öflugri skipum sl. ár.
Heimasíða Síldarvinnslunnar náði tali af Jón Gunnari Sigurjónssyni yfirverkstjóra og spurði hann um stöðuna í fiskiðjuverinu. „Við höfum ráðið inn u.þ.b. 50 sumarstarfsmenn fyrir vertíðina nokkrir komu til vinnu strax eftir sjómannadag en aðrir komu til vinnu í þessari viku.
Fastráðna starfsfólkið okkar er einnig að snúa tilbaka eftir sumarfrí og má segja að fjöldi starfsfólks aukist með hverjum deginum. Í heildina eru þetta um 90 starfsmenn sem munu vinna á þrískiptum vöktum eins og undanfarin ár. Núna er starfsfólkið að sinna viðhaldsvinnu og tiltekt bæði innan húss og utan. Verið að fara yfir vélar og búnað til að vera klár í þá makríl- og síldarvertíð sem framundan er. Við reiknum með stöðugri keyrslu næstu 4 mánuðina“ sagði Jón Gunnar.
Á efri myndinni eru starfsmenn Skagans 3X að setja upp nýja frystiskápa.
Ljósmyndir Húnbogi Sólon.