Lægra fiskverð
Á öðrum þriðjungi fiskveiðiársins var meðalverð á óslægðum þorski sem seldur var á fiskmörkuðum 5% lægra en það var á sama tíma í fyrra. Tímabilið janúar – apríl skilaði í ár 228 kr meðalverði sem er rúmum 12 kr lægra en á sama tíma í fyrra. Frá þessu er greint á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda.
Þetta er þeim mun alvarlegra þegar meðalgengi EUR og GBP var hærra nú en í fyrra. Dollarinn var hins vegar nokkru lægri – 100,49 nú á móti 111,22 í janúar – apríl 2017. Evran skilaði hins vegar 123,45 krónum á þessum öðrum þriðjungi fiskveiðiársins á móti 118,58 í fyrra, munurinn 4,1%. Á sömu tímabilum var meðalgengi pundsins 140,22 og 138,42.
Það vekur athygli að magn óslægðs þorsks á bakvið meðalverðið var í ár var 11.685 tonn sem var 770 tonnum minna en í fyrra, þar sem þá stóð yfir sjómannaverkfall til 19. febrúar.
Hver verðþróunin verður í sumar er ómögulegt að segja til um, en ljóst er að gengi krónunnar er ekki eina orsökin fyrir lækkun á verði þorsks á mörkuðum.