Kvörn úr stórum þorski

Deila:

Hafrannsóknastofnun Færeyja hefur fengið kvörn í afar stórum þorski úr Barentshafi. Aldursgreining hennar sýni að hann var 19 ára. Hann var veiddur af færeysku fiskiskipi og reyndist 157 sentímetrar að lengd og vó 43 kíló óslægður.

Kvörn úr stórum þorski

Hrygningarstofn þorsks í Barentshafi hefur á síðustu árum verið stærri en nokkru sinni síðan stofnstærðarmat hófst á ný árið 1946. Undir slíkum kringumstæðum er ekki óalgengt að slíkir golþorskar veiðist.

Aular af þessari stærð eru fátíðir við Færeyjar. Elsti aldursgreindi þorskur þaðan á síðustu 10 árum var 17 ára, 112 sentímetra langur og vó óslægður 16 kíló. Hann veiddist árið 2008. En elsti aldursgreindi þorskur er þó mun eldri eða yfir 30 ára.

Í fiskabók Gunnars Jónssonar segir að lengsti þorskur sem veiðst hefur við Ísland hafi verið 181 sentímetrar á lengd og veiddist hann á línu í Miðnessjó í apríl árið 1941. Þyngdina hefur höfundur ekki en sennilega hefur hann verið í kringum 60 kg.

Nú fyrir stuttu veiddist að öllum líkindum stærsti þorskur sem veiðst hefur við Noregsstrendur. Eftir að búið var að gera að honum vó hann 46 kg. Samkvæmt heimildum norska blaðsins Finmarken voru stærstu þorskar sem vitað var um að hefðu komið á land í Noregi fram til þessa um 180 sentímetrar á lengd og um 60 kg að þyngd. Líklega er þessi nýlega veiddi norski þorskur enn stærri.

Til eru dæmi um enn stærri þorska sem veiðst hafa við Nýfundnaland. Í einu tilviki var um að ræða þorsk sem var 2 metrar á lengd og vó 73 kg. Er hann að öllum líkindum stærsti þorskur sem veiðst hefur, alla vega á síðustu öld. En þegar haft er í huga hversu lengi menn hafa stundað þorskveiðar þá er mjög líklegt að einhvern tíma hafi veiðst enn stærri þorskur.

Deila: