Leggja til allt að 50% fækkun veiðidaga við Færeyjar

Deila:

Hafrannsóknastofnun Færeyja leggur til verulega fækkun veiðidaga á næsta ári. Hún vill að leyfilegir veiðidagar á næsta fiskveiðiári verði aðeins 50% af þeim sem verða nýttir á þessu fiskveiðiári. Allt bendir til þess að nú verði aðeins 58% af leyfilegum veiðidögum nýttir á þessu fiskveiðiári. Því er um gífurlegan niðurskurð að ræða, gangi tillögur stofnunarinnar eftir.

Í tilmælum stofnunarinnar segir að staða ufsastofnsins við Færeyjar sé þokkaleg, en staða þorsk- og ýsustofnsins sé mjög slæm. Nýliðun í þorski og ýsu hafi brugðist fleiri ár í röð en nokkru sinni á síðari tímum, en eitthvað gæti verið að rofa til, einkum í ýsunni.

„Hrygningarstofnar þorsks og ýsu eru undir eða við varúðarmörk og við erum á lengsta tímabili lítilla veiða samkvæmt hagtölum síðan í upphafi síðustu aldar á færeyska landgrunninu og síðan 1965 á Færeyjabanka. Nauðsynlegt er að taka mið af stöðu stofnanna og taka af fullri alvöru á málunum til að reyna að byggja stofnana upp á ný. Staða ufsastofnsins er betri. Stærð hrygningarstofnsins er yfir varúðarmörkum og er hann í vexti,“ segir í tilmælunum.

Fiskveiðiárið í Færeyjum er hið sama og hér, það er það hefst fyrsta september. En um næstu áramót fellur löggjöfin um stjórnun fiskveiða úr gildi og taka þá ný lög við, en frumvarp til þeirra er nú til meðferðar á Lögþingi Færeyja.

Stofnunin leggur til að ónotaðir fiskveiðidagar á þessu ári verði teknir út úr kerfinu. Slæmt sé að hafa ónotaða veiðidaga inni í kerfinu, því þegar aflabrögð glæðist verði þeir nýttir aftur og þá verði veiðiálagið of mikið.

Til varnar ufsanum er lagt til að smáfiskaskilja verði sett í trollin, en verði það ekki gert, verði að fækka veiðidögum togara um 28%.

Til varnar þorski og ýsu er  lagt til að í þeim skipaflokkum sem mest stunda veiðar á þorski, það eru línuskip, litlir togarar og útróðrarbátar, verði veiðidagar aðeins 50% of nýttum dögum á þessu fiskveiðiári.

Auk þess leggur stofnunin til ýmsar fleiri tæknilegar takmarkanir eins og svæðafriðanir og lokanir og hrygningarstopp á þremur svæðum frá 15. febrúar til 15. apríl.

Þá er lagt til að engar veiðar í atvinnuskyni verði stundaðar á Færeyjabanka. Stofnunin vill að með upptöku nýrra laga um fiskveiðistjórnum verði komið á nýtingaráætlun fyrir fiskistofna sem byggi fyrst og fremst á líffræðilegum þáttum, það er stofnstærðarmati og miðað við mesta leyfilegan ráðlegan afla.

Fiskveiðum við Færeyjar hefur verið stjórnað með fiskidagakerfi frá árinu 1996.

Deila: