Tæplega hálfnaðir með humarkvótann
Humaraflinn á vertíðinni er nú orðinn um 211 tonn af slitnum humri, en leyfilegur heildarafli er 489 tonn. Því er góður helmingur kvótans enn óveiddur, þegar tveir og hálfur mánuður eru eftir af fiskveiðiárinu.
Aðeins 10 bátar hafa landað humri á þessu fiskveiðiári, en mun fleiri bátar hafa fengið úthlutun. Mikið er um að heimildirnar séu færðar á milli báta, einkum þegar lítið kemur í hlut þeirra.
Humarmiðin eru aðallega á tveimur svæðum, fyrir austanverðu Suðurlandi og suður og vestur af Reykjanesi. Veiðiheimildir eru mestar skráðar á báta frá Þorlákshöfn og Hornafirði og eru það helstu staðirnir þar sem humar er unninn.
Aflahæsti báturinn á humri nú samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu er Jón á Hofi ÁR með 34 tonn, en næst kemur Fróði ÁR með 33,4 tonn, þá Þinganes ÁR með 33 tonn. Í fjórða sætinu er Þórir SF með 32,8 tonn. Skinney SF er með 26 tonn, Drangavík VE með 23,4 tonn, Brynjólfur VE er með 18 tonn, Sigurður Ólafsson SF með 7,8 tonn, Friðrik Sigurðsson ÁR 1,8 og Maggý VE með 939 kíló.
Á myndinni er Þórir SF að koma til hafnar í Grindavík. Ljósmynd Hjörtur Gíslason