Allt klárt fyrir makrílvertíð á Vopnafirði

Deila:

,,Við fengum makríl, reyndar blandaðan með síld, í síðustu viku og erum búnir að stilla allar vélar. Í gær fengum við svo um 600 tonn af makríl og það er verið að vinna þann afla núna.“

Þetta sagði Magnús Róbertsson, vinnslustjóri hjá HB Granda á Vopnafirði, er rætt var við hann  á heimasíðu HB Granda. Venus NS var þá farinn á miðin en enn var verið að vinna afla Víkings AK.

,,Við áttum reyndar von á því að vertíðin færi fyrr af stað en við stjórnum ekki fiskgengdinni. Mér skilst að nú sé helsta makrílveiðisvæðið sunnan við Vestmannaeyjar. Þar eru nokkur skip að veiðum og Venus stefnir þangað,“ segir Magnús en samkvæmt upplýsingum hans verður gert hlé á bolfiskvinnslu HB Granda á staðnum á meðan makríl- og svo síldarvertíð stendur.

,,Bolfiskvinnslan hefur gengið mjög vel en nú er starfsfólkið allt komið í uppsjávarvinnsluna,“ segir Magnús Róbertsson.

 

Deila: