Ævisaga Magna Kristjánssonar gefin út

Deila:

Út er komin ævisaga Magna Kristjánssonar skipstjóra frá Neskaupstað. Hann var árum saman skipstjóri á bátum Síldarvinnslunnar m.a. á fyrsta skuttogara Íslendinga, Barða. Í bókinni, sem Ragnar Ingi Aðalsteinsson frá Vaðbrekku skrifar, segir Magni frá mörgu eftirminnilegu, svo sem:

– uppvexti í Neskaupstað

– sveitadvöl og síldveiðiævintýri í Mjóafirði

– sérkennilegum jólagjöfum hans og Dadda Dóra

– áflogum um borð í síðutogara

– fyrsta skuttogaranum

– Jóni gaur

– ríflega 50 daga siglingu heim frá Japan

– torkennilegum kapli á grunnslóðinni

– æsilegum átökum í Þorskastríðinu

– uppreisn á loðnuflotanum

– þróunarstarfi á Grænhöfðaeyjum

– örnefnum á hafsbotni

– eftirminnilegum fundi hjá Farmanna- og fiskimannasambandinu

– sögulegum hreindýraveiðum

– sviptingum í pólitík og mörgu fleiru.

„Magni segir frá af hispursleysi og hreinskilni. Hann var mikill áhugamaður um kolmunnaveiðar, kenndi sjómönnum ýmis fræði, kom á fót söfnum í heimabyggð sinni og svo mætti lengi telja. Þá tóku Norðmenn feil á honum og sjónvarpshetju sinni, sjálfum Fleksnes, og var hann ekkert að leiðrétta þá.

Magni var stýrimaður á Berki elsta en síðan skipstjóri á skuttogaranum Barða á árunum 1970-1973. Hann tók síðan við skuttogaranum Bjarti árið 1973 og sat þar í skipstjórastóli til 1976. Lengst var síðan Magni skipstjóri á Stóra-Berki eða á árunum 1976-1989,“ segir í frétt um útgáfuna.

 

Deila: