Snjallgámar á allar starfsstöðvar HB Granda
Fyrsti snjallgámurinn varð að veruleika í lok árs 2017 í Kistunni, sorpflokkunarstöð HB Granda á Akranesi. Snjallgámurinn skráir rauntíma upplýsingar um sorpflokkun félagsins og skilar rafrænt inn í umhverfisgagnagrunn þess. Gámurinn sendir daglega frá sér skýrslur þar sem fram kemur móttekið magn skilgreint niður á tegund úrgangs og starfstöðvar og lætur jafnframt vita þegar gámurinn er orðinn fullur.
Þróunarsvið Íslenska gámafélagsins hefur haft á teikniborðinu hugmyndir um tæknivæddar lausnir þegar kemur að skipulagi og skráningu á hráefnum og sorpi. Hugmyndin um snjallgám (smart container) gengur út á að rauntíma skrá endurvinnslu hráefna og sorps sem er til samræmis við flokkun og umhverfismarkmið viðkomandi fyrirtækis. Snjalllausnin er sniðin að þörfum hvers fyrirtækis fyrir sig. Aðgangsstýring er notuð þar sem margar deildir nota sama gáminn, ýmist með kortalausnum og aðgangsnúmeri sem er slegið inn við notkun. Í tilfelli HB Granda vinnur sérþjálfað starfsfólk við góðar aðstæður á sorpflokkunarstöðvum fyrirtækisins.
„HB Grandi hóf eitt metnaðarfyllsta flokkunar- og umhverfisstarf sem við hjá Íslenska gámafélaginu höfum orðið vitni af á Íslandi. Upphafið af öllu þessu var flokkun félagsins á sorpi á Vopnafirði fyrir um 8 árum síðan. Þegar leitað var til Íslenska gámafélagsins hafði HB Grandi það brautryðjandastarf að leiðarljósi við innleiðingu á flokkun og endurvinnslu á sorpi á öðrum starfsstöðvum félagsins,“ segir Jörgen Þór Þráinsson hjá Íslenska Gámafélaginu í samtali á heimasíðu HB Granda.
Á næstu dögum verður næsti snjallgámur tekinn í notkun á Vopnafirði. Vinna er hafin á innleiðingu, uppsetningu búnaðar, prufukeyrslu og kennslu. Í febrúar er stefnt að því að ljúka við þriðja snjallgáminn í Svaninum, flokkunarstöð HB Granda í Reykjavík.
Snjallgámavæðing HB Granda er afrakstur vinnu og þróunar starfsfólks HB Granda í samvinnu við Íslenska gámafélagið sem er stutt af tæknilausnum fremstu fyrirtækja á á sviði umhverfislausna.