Breytt streymi sjávar um Íslandshrygginn

Deila:

Nýjar rannsóknir sem Hafrannsóknastofnun Færeyja hefur unnið að með Dönum, Norðmönnum og Þjóðverjum sýna að mikið hefur dregið úr botnstreymi kaldsjávar að norðan gegnum skarðið í Íslandshryggnum sem nefnist Vesturdalur. Þess í stað hefur streymi hlýrri yfirborðssjávar úr Atlantshafi inn í Norðurhöf aukist.

Færeyjar liggja á neðansjávarhrygg norðan frá Íslandi sem er líkt og skilrúm milli norðlægari hafa og heimshafanna fyrir vestan og sunnan eyjarnar. Sjávarstraumar liggja þó þversum yfir hrygginn. Í efri lögum þeirra er hlýsjór sem gengur til norðurs, en í djúpinu streymir kaldur sjór í gegnum skörðin í hryggnum niður í Atlantshafið.

Þetta streymi kaldsjávar hefur sogið til sín hita og koldíoxíð úr andrúmsloftinu á norðurslóðum og þegar það er komið yfir hrygginn, sekkur straumurinn niður í hafdjúpin fyrir sunnan. Þessi framvinda ræður miklu um veðurfar í veröldinni, en það skiptir jafnframt miklu máli fyrir Ísland og Færeyjar því kaldi sjórinn sem skríður suður eftir botninum dregur til baka hlýrri sjó í efri lögum sem leiðir til hærra hitastigs á þessum slóðum en vænta mætti miðað við norðlæga breidd þeirra.

Eins og sjá má af teikningunni skiptist botnstraumurinn venjulega í fjórar æðar. Tvær sterkustu æðarnar liggja um Danmerkursund og Bankarennuna. (DS og BR á myndinni) Minni straumur fer þvert yfir Wyville Thomsonhrygginn, WTR, og síðasta æðin er sú sem kaldi sjórinn flæðir um yfir Íslandshrygginn, ÍR, og það er hún, sem nýjustu rannsóknirnar hafa beinst að.

Þótt danskir haffræðingar hafi mælt streymi kaldsjávar yfir Íslandshrygginn þegar á nítjándu öld er það streymið sem minnst er vitað um. Engu að síður er það talið víst að þetta streymi hafi að mestu legið í gegnum Vesturdal. Þess vegna var fengin fjárveiting frá dönskum stjórnvöldum til að fara í þessar mælingar á sjávarstreymi. Þær voru gerðar frá þýska rannsóknaskipinu Poseidon í ágúst 2016 og í vor fór færeyska rannsóknaskipið Magnus Heinason yfirsvæðið og fór yfir niðurstöður Þjóðverjanna.

Þær mælingar sýndu allt aðrar niðurstöður. Í stað þess að að mæla stöðugan straum úr norðri, reyndist streymi með botni nánast ekkert. Það bendir til þess að streymi kaldsjávar yfir Íslandshrygginn sé mun minna en talið var. Skýringin er talin sú, að streymi sjávar úr Atlantshafi til norðurs í efri lögum í gegnum Vesturdal sé svo mikið að það hindri botnstreymið að norðan.

Því streymir hlýr sjór yfir Íslandshrygginn á fleiri stöðum, á hvorum enda hans. Nyrðri straumurinn sem fer um Vesturdal er sterkari en talið var. Hlýsjórinn sem kemur yfir hrygginn safnast upp í Færeyjastraumnum og endurnýjar þannig sjóinn á landgrunni Færeyja. Því er framhaldið að kanna hver áhrifin þar verða.

Heimild: Hafrannsóknastofnun Færeyja. Bráðabirgðaniðurstöður má einnig sjá í vísindaritinu Ocean Science hér

 

Deila: