Flotinn óseðjandi

Deila:

„Erfiðlega hefur gengið að semja um ábyrga stjórn veiða og réttláta skiptingu veiðiréttar milli ríkja úr hinum stóru deilistofnum uppsjávarfisks í Norðaustur Atlantshafi; síld, kolmunna og makríl. Samningarfundir í október skiluðu því miður ekki árangri. Þau ríki sem hafa aðkomu að því samstarfi hafa vafalaust hver sína skýringu á ástandinu. Eina skýringu má þó telja rökréttari en aðrar og hún verður nokkuð augljós þegar á hana er varpað ljósi.“  Svo segir í grein á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Þar segir ennfremur:

Sjálfbærar veiðar krefjast sjálfbærs flota
Það eru því miður Norðmenn sem hafa staðið í vegi fyrir farsælu samstarfi ríkjanna um stjórn og skiptingu veiðiréttar. Breytir engu þótt talsmenn norskra útgerðarmanna haldi öðru fram. Afstaða Norðmanna til eftirfarandi þátta varpar ljósi á þessa fullyrðingu:

  1. Norðmenn hafa neitað að viðurkenna kröfur ríkjanna í vestri til sanngjarns aflahlutar úr þessum fiskistofnum þrátt fyrir miklar göngur á hafsvæðið og góð tækifæri þar til veiða;
  2. Norðmenn hafa þrýst á hærra veiðihlutfall en áður gilti í hverjum fiskistofninum á fætur öðrum og þar með lagt aukna áherslu á sjónarmið aukins afla til skamms tíma og minnkaða áherslu á langtímasjónarmið varkárni, stöðugleika og sjálfbærni.

En hvað skýrir þessa afstöðu Norðmanna? Ekki verður annað ráðið en að ástæðan sé fyrst og síðast sú, að Norðmenn þráast við að halda úti fiskiskipaflota sem er alltof stór miðað við tækifærin sem þeim bjóðast til veiða. Það gera þeir þrátt fyrir þær skyldur sem alþjóðasamningar leggja þeim á herðar um að draga úr stærð flotans og forðast að beita umframveiðigetu á kostnað fiskistofnanna og rétti annarra til veiða.

Reynsla Íslendinga
Líkt og önnur ríki hafa Íslendingar þurft að taka á erfiðum vanda vegna of stórs fiskiskipaflota. Aðlögun stærðar og veiðigetu flotans, að þeim tækifærum sem eru til fiskveiða, er nauðsynleg forsenda árangurs við fiskiveiðistjórnun sem miðar að vernd og sjálfbærri nýtingu á fiskistofnum. Þetta hafa Íslendingar gert með því að setja veiðikvóta á skip og heimila framsal veiðiheimilda (aflamarkskerfi (ITQ system of fisheries management)). Þannig hefur aflahlutdeild fleiri skipa verið sameinuð á eitt skip og þeim fækkað. Á árunum eftir 1970 fóru allt að 100 íslensk skip til loðnuveiða, þótt ekki væru þau öll eingöngu í veiðum á uppsjávarfiski. Um aldamótin voru uppsjávarveiðiskip á Íslandi rúmlega 40, en í dag eru þau 18.

Skylda Norðmanna og ábyrgð
Ég ætla ekki að fullyrða að leið Íslendinga sé eina leiðin að settu marki, fleiri koma til greina. Íslendingar hafa þó talið þessa leið bæði hagkvæmasta og árangursríkasta fyrir sig. Það er auðvitað bæði réttur og skylda Norðmanna að velja sína eigin leið. Norðmenn hafa reyndar lengi kannað möguleika á slíkri vegferð. Sviptingar í pólitíkinni hafa þó orðið til þess að ekkert hefur orðið úr og enn virðast norskir stjórnmálamenn ófærir um að leiða þetta brýna sjálfbærnimál til lykta. Vandi Norðmanna er því enn óleystur. Það skapar tvíþættan vanda. Í fyrsta lagi leiðir of stór og dýr floti til rekstrarvanda fyrir norskan sjávarútveg, sem á í erfiðleikum með að fóðra skip með nægilega miklum afla. Í öðru lagi veldur of stór floti óeðlilegu álagi á auðlindina. Það skapar ekki síður vanda fyrir önnur strandríki og veiðiríki á stóru hafsvæði, sem nýta sameiginlega fiskistofna við að tryggja sjálfbæra nýtingu.
Norðmenn verða að bæta ráð sitt í þessum efnum, það er þeirra skylda og ábyrgð. Þeir þurfa að hagræða í flotanum, leggja af útþenslustefnu og friðmælast við nágranna sína og frændur í vestri.
Öll ríki með veiðirétt í Norðaustur Atlantshafi bera á því sameiginlega ábyrgð að vel sé farið með auðlindina og að samningar takist um veiðina. Svo lengi sem Norðmenn skirrast við að taka á þeim vanda sem felst í of stórum, óseðjandi og ósjálfbærum flota, eins og þeim ber samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum, er þess því miður varla að vænta að hægt verði að gera milliríkjasamninga um sjálfbæra nýtingu á deilistofnum uppsjávarfiska í Norðaustur Atlantshafi. Ábyrgð Norðmanna er því mikil.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir

Deila: